Sport

Þor­steinn tók fram úr mörgum og varð fyrstur Ís­lendinga í mark á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Þorsteinn Roy Jóhannsson var fyrstur Íslendinga í mark á HM í utanvegahlaupum.
Þorsteinn Roy Jóhannsson var fyrstur Íslendinga í mark á HM í utanvegahlaupum. Mynd/Laugavegshlaupið

Þorsteinn Roy Jóhannsson varð í 57. sæti á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í krefjandi aðstæðum á Spáni í dag, í 45 kílómetra hlaupi. Alls hlupu sjö íslenskir keppendur af stað í morgun, fjórir karlar og þrjár konur.

Þorsteinn hljóp á 5:37:23 klukkutímum, í bröttum hlíðum og miklum hæðarbreytingum í Pýreneafjöllunum, og endaði um 55 mínútum á eftir sigurvegaranum. 

Hinn franski Frédéric Tranchand hljóp til sigurs á 4:42:10 og sló við þremur heimamönnum sem komu næstir á eftir honum. Tranchand var rúmum þremur mínútum á undan næsta manni, Manuel Merillas.

Þorsteinn var í 100. sæti við fyrsta tímatökusvæðið, eftir 6,6 kílómetra, en færði sig sífellt framar eftir því sem leið á hlaupið. Hann var í 70. sæti eftir 34,8 kílómetra og endaði eins og fyrr segir í 57. sæti.

Fyrrverandi fótboltamaðurinn Halldór Hermann Jónsson er einnig kominn í mark og varð í 103. sæti á 6:06:13 klukkutímum. Grétar Örn Guðmundsson varð  í 115. sæti á 6:13:51. Stefán Pálsson varð svo í 138. sæti á 6:50:50 klukkutímum. Alls lauk 171 keppandi hlaupinu en 27 urðu að hætta keppni. 

Hin sænska Tove Alexandersson fagnaði sigri í kvennaflokki á 5:04:20 og var með algjöra yfirburði, rúmum hálftíma á undan næstu konu sem var Sara Alonso.

Anna Pálmadóttir varð í 67. sæti á 7:03:45 klukkutímum og Íris Anna Skúladóttir skammt þar á eftir, í 72. sæti á 7:11:59. Alls kláruðu 112 konur hlaupið en 50 urðu að hætta og var Elín Edda Sigurðardóttir þar á meðal en hún neyddist til að hætta snemma í hlaupinu.

Í fyrramálið keppa svo fimm Íslendingar í enn lengra hlaupi, eða 82 kílómetra hlaupi, og óhætt að segja að íslenski hópurinn sé sterkur. Hann skipa þau Andrea Kolbeinsdóttir, Guðfinna Björnsdóttir, Elísa Kristinsdóttir, Þorbergur Ingi Jónsson og Sigurjón Ernir Sturluson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×