Sport

Ein­föld að­gerð varð að fimm mánaða ferli

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Gavi í leik á undirbúningstímabilinu.
Gavi í leik á undirbúningstímabilinu. EPA/JEON HEON-KYUN

Spænski miðjumaðurinn Gavi mætti á spítalann í Barcelona til að gangast undir einfalda aðgerð en meiðsli hans reyndust mun alvarlegri en í fyrstu var talið.

Gavi er tiltölulega nýbúinn að jafna sig af krossbandsslitum í hnénu sem plöguðu hann í tæpt ár, frá nóvember 2023 til október 2024, og héldu honum meðal annars frá keppni þegar Spánn varð Evrópumeistari í fyrra.

Hann fór svo að finna aftur til í hnénu í síðasta mánuði og hefur ekki spilað í síðustu leikjum.

Læknateymi Barcelona taldi hann vera með marið liðband og ákvað að senda hann í einfalda aðgerð sem átti að taka mánuð að jafna sig á.

Þá kom hins vegar í ljós að liðbandið var ekki bara marið heldur algjörlega slitið. Gavi þurfti því að gangast undir mun alvarlegri aðgerð og verður frá í fimm mánuði hið minnsta.

Þetta er mikið áfall fyrir hinn meiðslahrjáða Gavi, sem var eitt sinn talinn eitt mesta efni Barcelona. Honum var ætlað að stýra spilinu á miðjunni hjá Barcelona næstu árin með Pedri, samferðamanni sínum úr akademíu Barcelona.

Xavi og Gavi.EPA-EFE/Enric Fontcuberta

Þeim tveimur var meira að segja líkt við goðsagnirnar Iniesta og Xavi, sá síðarnefndi hefur líka miklar mætur á Gavi og hefur kallað hann „hjarta liðsins með gæðalappir.“

Gavi átti gott tímabil eftir að hafa jafnað sig af meiðslum í fyrra og var markahæsti leikmaður Barcelona í æfingaferðinni til Asíu í sumar, en þarf nú enn og aftur að einbeita sér að meiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×