Innlent

Tíu gistu í fanga­geymslu og þar af tveir „peruölvaðir“

Samúel Karl Ólason skrifar
Alls voru 79 mál skráð í kerfi lögreglu frá klukkan fimm í gær og til fimm í morgun.
Alls voru 79 mál skráð í kerfi lögreglu frá klukkan fimm í gær og til fimm í morgun. Vísir/Ívar Fannar

Lögregluþjónar virðast hafa haft í nógu að snúast í nótt og að miklu leyti vegna ölvunar í miðbænum. Alls voru 79 mál skráð í kerfi lögreglu frá klukkan fimm í gær og til fimm í morgun og gistu tíu í fangaklefa í nótt.

Nokkrir voru handteknir vegna ölvunar, ofbeldistilburða og ölvunarláta, þar af tveir „peruölvaðir“ sem brutu gegn lögreglusamþykkt. Einn var handtekinn eftir að tilkynning barst um innbrot á byggingarsvæði.

Einn leigubílstjóri óskaði eftir aðstoð vegna farþega sem neitaði að greiða fyrir farið. Það mál var víst afgreitt án vandræða.

Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna umferðarslyss þar sem bíl hafði verið ekið á rafmagnshlaupahjól. Engin slys urðu á fólki og var eignatjón minniháttar, samkvæmt dagbók lögreglu.

Í öðru tilfelli var ökumaður kærður fyrir of hraðan akstur en hann mældist á 103 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60 kílómetrar á klukkustund.

Fjórir voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Tveir þeirra höfðu áður verið sviptir ökuréttindum.

Skráningarmerki var fjarlægt af ótryggðum bíl og lögreglu barst einnig tilkynning um þjófnað á númeraplötum. Sá þjófnaður er í rannsókn en ekki fylgir sögunni í dagbókinni hvort málin gætu verið tengd.

Þá var einn ökumaður kærður fyrir að vera með filmur í framrúðum bíls síns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×