Innlent

Rann­saka mögu­lega stunguárás

Jón Þór Stefánsson skrifar
Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var skömmu fyrir miðnætti í gærkvöldi tilkynnt um líkamsárás í Reykjavík. Talað var um árásina sem hnífstungu.

Einn var fluttur á slysadeild með minni háttar áverka. Meintur gerandi fannst fljótlega og var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Atvikið mun hafa átt sér stað í umdæmi lögreglustöðvar eitt, sem sér um löggæslu í miðbæ Reykjavíkur, Vesturbæ, Austurbæ, og á Seltjarnarnesi.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar.

Í sama umdæmi var einstaklingur handtekinn grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Sá reyndist einnig í ólöglegri dvöl hér á landi og var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Lögreglu var tilkynnt um hópslagsmál við skemmtistað í miðbænum. Þar voru nokkrir handteknir og einn fluttur á slysadeild.

Í umdæmi lögreglustöðvar tvö, sem sér um Hafnarfjörð og Garðabæ, var tilkynnt um ungmenni að kasta steinum í bíla. Nokkuð tjón mun hafa orðið eftir það, en málið er sagt hafa verið leyst með aðkomu forráðamanna.

Maður féll af vinnupalli fjóra metra niður á jörðu í umdæmi lögreglustöðvar fjögur, sem sér um verkefni í Grafarvogi, Grafarholti, Mosfellsbæ, og Árbæ. Maðurinn var fluttur á slysadeild til skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×