Fótbolti

Depay fastur í Brasilíu án vega­bréfs

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Memphis Depay er markahæsti leikmaður Hollands frá upphafi.
Memphis Depay er markahæsti leikmaður Hollands frá upphafi. Vísir/Getty

Memphis Depay gat ekki komið til móts við hollenska landsliðið í gær vegna þess að vegabréfi hans var stolið. 

Holland á leiki framundan gegn Möltu á fimmtudag og Finnlandi á sunnudag. Hópurinn kom saman í gær en saknaði Depay, sem spilar með Corinthians í Brasilíu og komst ekki úr landi. Verið er að vinna í þeim málum og vonir eru bundnar við að hann geti ferðast fljótlega.

Depay er lykilmaður í liðinu og varð markahæsti leikmaður Hollands frá upphafi í síðasta landsleikjaglugga, þegar hann skoraði tvennu gegn Litáen og tók fram úr Robin van Persie sem skoraði 50 mörk fyrir Holland. Depay hefur skorað 52 mörk í 104 landsleikjum síðan árið 2013.

„Þetta er mjög óheppilegt, aðallega fyrir hann, en líka fyrir okkur. Við viljum auðvitað vera með fullmannaðan hóp þegar við hefjum undirbúning, en á sama tíma er lítið sem við getum gert í þessu. Við vonum að hann ferðist til okkar eins fljótt og mögulegt er“ sagði hollenski landsliðsþjálfarinn Ronald Koeman.

Holland er í efsta sæti G-riðilsins í undankeppni HM, jafnt Póllandi að stigum en með leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×