Fótbolti

„Særði fólk mikið með því að fara til Sádi-Arabíu“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashleigh Plumptre kann vel við sig hjá Al Ittihad og hefur framlengt samning sinn.
Ashleigh Plumptre kann vel við sig hjá Al Ittihad og hefur framlengt samning sinn. Getty/Jose Breton

Knattspyrnukonan Ashleigh Plumptre tók umdeild skref fyrir nokkrum árum þegar hún ákvað að semja við lið í Sádi-Arabíu.

Eins og Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrrum fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins, þá hefur hún góða sögu að segja af lífi knattspyrnukonu í landi sem hefur verið gagnrýnd harðlega fyrir meðferð sína á konum.

Breska ríkisútvarpið fjallar um reynslu knattspyrnukonunnar en þegar tilboðið frá Sádi-Arabíu barst fyrst var fyrsta hugsun Ashleigh Plumptre að segja nei.

Árið 2023 var samningur varnarmannsins við Leicester City að renna út en það var hennar uppeldisfélag. Eftir samningaviðræður og heimsókn til Mið-Austurlanda ákvað nígeríski landsliðsmaðurinn að stökkva á tækifærið og verða fyrsti leikmaðurinn til að fara úr ensku úrvalsdeild kvenna (WSL) yfir í sádi-arabísku úrvalsdeild kvenna (SWPL).

Tveimur árum síðar hefur hún framlengt samning sinn við Al-Ittihad í Jeddah og vill hún hrekja fyrirframgefnar hugmyndir Vesturlanda um Sádi-Arabíu og hvernig líf íþróttakvenna er þar.

Hún viðurkennir að sjá eftir því að hafa misst traust sumra hinsegin stuðningsmanna í kvennaknattspyrnu og viðurkennir að kvennaknattspyrna í Sádi-Arabíu eigi langt í land, bæði innan vallar sem utan.

Vildi gefa þeim tækifæri

„Ég ræddi við nokkur lið í Bretlandi, Bandaríkjunum og Evrópu, en þá sagði pabbi að lið í Sádi-Arabíu hefði áhuga á mér,“ sagði hún í samtali við BBC Sport. „Ég varð mjög hissa. Fyrstu viðbrögð mín voru „nei“, en ég vildi gefa þeim tækifæri.“

Plumptre var ein af fyrstu alþjóðlegu stjörnunum til að fara í sádi-arabísku úrvalsdeildina, sem var stofnuð árið 2022 sem atvinnumannadeild. Karlakeppnin, sádi-arabíska atvinnumannadeildin, hefur skapað sér orðspor fyrir að eyða miklum peningum í að fá til sín stór nöfn á heimsvísu eins og Cristiano Ronaldo, Neymar og Karim Benzema.

Fulltrúar Plumptre neituðu að tjá sig um laun hennar og samning við Al-Ittihad og leikmaðurinn sjálfur sagði að verkefnið hefði verið aðalaðdráttaraflið, frekar en peningarnir.

Ræddum varla um fótbolta

„Ég átti klukkutíma langt símtal við þjálfarann og tvo úr stjórnendateyminu og sagði við pabba: „Ég hef virkilega góða tilfinningu fyrir þessu“,“ sagði Plumptre.

„Við ræddum varla um fótbolta, heldur um okkur sjálf og hvað við hefðum ástríðu fyrir.“

„Ég er manneskja sem fer mikið eftir tilfinningum og innsæi. En ég vildi fara þangað og heimsækja. Ég vildi sjá hvernig þetta væri í raun og veru. Ég var í heimsókn í tvo daga og líkaði það mjög vel, og þegar ég fór þaðan hugsaði ég: ‚Þetta er staðurinn þar sem ég vil vera.'

Olli uppnámi hjá sumum

Félagaskipti Plumptre voru umdeild að mati sumra. Ekki aðeins var um að ræða landsliðskonu á hátindi ferilsins sem færði sig yfir í deild sem var að mestu óþekkt fyrir evrópska áhorfendur, heldur olli það einnig uppnámi hjá sumum innan íþróttar þar sem hinsegin fólk hefur yfirleitt verið mun velkomnara en í karlaboltanum.

Samt sem áður eru sambönd samkynhneigðra ólögleg í Sádi-Arabíu.

Plumptre sagði að hún og liðsfélagar hennar hjá Leicester hefðu verið í nánum tengslum við stuðningsmannahóp hinsegin fólks hjá félaginu og að hún hefði fengið neikvæðar athugasemdir í kjölfar ákvörðunar sinnar um að ganga til liðs við Al-Ittihad. Þegar hún er spurð út í þessi viðbrögð er ljóst að þau hafa enn áhrif á hana.

Viðbrögðin voru alls ekki góð

„Sérstaklega þegar ég flutti hingað, þá voru viðbrögðin alls ekki góð,“ sagði hún. „Það var erfitt.“

„Þegar ég tók þessa ákvörðun var fólk í kringum Leicester, ég man eftir nokkrum athugasemdum sem ég fékk, það var eins og ég væri ekki sú manneskja sem það hélt að ég væri,“ sagði Plumptre.

„Ég hafði sært það djúpt vegna þess að því fannst eins og ég væri fulltrúi einhvers sem lætur því líða eins og fólk væri ekki metið að verðleikum, og ég skil það. Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja,“ sagði Plumptre.

Leggur ekki blessun sína yfir ákveðna hluti

„Það þýðir ekki að ég leggi blessun mína yfir ákveðna hluti, jafnvel þótt félagaskiptin þýði að ég sé tengd við ákveðna hluti.“

Líkt og margir útlendingar í Sádi-Arabíu býr Plumptre í lokuðu íbúðahverfi sem kallast „compound“.

Þessi íbúðahverfi bjóða upp á lífsstíl sem líkist meira vestrænum úthverfum og eru með líkamsræktarstöðvum, sundlaugum, veitingastöðum og annarri aðstöðu á lokuðu svæði. Sum eru jafnvel með óopinbera bari sem selja áfengi, sem er bannað í Sádi-Arabíu.

Plumptre segist líða hamingjusamari og öruggari sem kona í Jeddah en hún gerði í Bretlandi.

„Ég þekki landsliðskonur, fjölskyldumeðlimi og vini sem hafa komið hingað og líður í alvöru öruggari og rólegri hér en í Bretlandi,“ sagði hún.

„Vinkona mín sem var hérna lýsti þessu sem eins konar friðarbólu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×