Skoðun

Fram­tíðar­sýn í sam­göngu­málum er mosa­vaxin

Sigurður Páll Jónsson skrifar

Þjóðvegir á Íslandi eru birtingarmynd stöðnunar og meðvitundarleysis stjórnvalda síðustu ára. Þau tólf ár sem ég hef verið viðloðandi stjórnmál hafa vegir landsins drabbast niður með stóraukinni viðhaldsskuld.

Strandsiglingar ríkisins voru aflagðar fyrir margt löngu. Fjöldi ferðamanna er kominn yfir 2,5 milljónir. Fisk- og vöruflutningar á landi hafa aukist og svona mætti áfram telja. Bara þessi staðreynd hefur aukið álagið á vegunum um allan helming. Einn vörubíll með 40 feta trailergám, kannski um 40 tonna brúttó, slítur vegunum meira en yfir 3 þúsund fólksbílar. Undir svona þunga bíla þarf vegi með alvöru burðarþol og breidd vegarins slík að hægt sé að mætast án þess að eiga á hættu að hliðarspeglarnir sláist saman.

Í viðtölum við fulltrúa Vegagerðarinnar er oft sótt að þeim eins og þeir beri ábyrgð á stöðunni, sem er ósanngjarnt. Það er ríkisstjórn hvers tíma sem ber ábyrgðina og enginn annar. Samgönguáætlanir standast aldrei og metnaðarleysi er algjört. En hvað er til ráða?

Að mínu mati þarf nýja hugsun og metnað um örugga vegi sem mæta þörfum nútímans í ljósi staðreynda. Ekkert „já en“ þetta kostar meira en við ráðum við.

Þeirra tíma ný hugsun eru t.d. Hvalfjarðargöngin, þar sem gjald var tekið af umferðinni og það borgaði sig upp á nokkrum árum.

Ég heyrði viðtal við íslenskan verkfræðing sem unnið hefur mikið fyrir færeysk stjórnvöld um uppbyggingu samgöngumála. Þar er bygging jarðganga í miklum blóma. Athyglisvert sagði fyrirspyrjandinn, og hvernig stendur á þessum krafti fænda okkar?

Tja, sagði verkfræðingurinn, allavega hafa stjórnvöld í Færeyjum mjög mikinn áhuga á bættum samgöngum.

Það er nefnilega það, segi ég, er þá áhugaleysi íslenskra stjórnvalda um að kenna og eða „mosavaxinn“ hugsunargangur stöðnunar?

Höfundur er fyrrverandi þingmaður. 




Skoðun

Sjá meira


×