Fótbolti

Mbappé kemur ekki til Ís­lands

Sindri Sverrisson skrifar
Kylian Mbappé, fyrirliði Frakka, missir af leiknum við Ísland á mánudaginn.
Kylian Mbappé, fyrirliði Frakka, missir af leiknum við Ísland á mánudaginn. Getty/Xavier Laine

Kylian Mbappé mun ekki ferðast með félögum sínum til Reykjavíkur á morgun, laugardag, og missir af leiknum við Ísland í undankeppni HM í fótbolta á mánudagskvöld.

Margir hafa eflaust beðið spenntir eftir komu Mbappé enda einn allra besti fótboltamaður heims en nú er ljóst að hvorki hann né Ousmane Dembélé, handhafi Gullboltans, verða á ferðinni á Laugardalsvelli á mánudag.

Mbappé ku hafa meiðst í ökkla í seinni hálfleik gegn Aserbaísjan í kvöld, eftir að hafa skorað laglegt mark í 3-0 sigri Frakka.

Mbappé bað um skiptingu þegar um tíu mínútur voru eftir og samkvæmt L'Equipe var tekin ákvörðun um það strax eftir leik að hann færi ekki með til Íslands.

Mbappé mun þess í stað halda til Spánar, þar sem hann er leikmaður Real Madrid, en hann hafði meiðst í ökklanum í leik með Real um síðustu helgi.

Kylian Mbappé settist niður vegna meiðsla sinna í kvöld og bað um skiptingu.Getty/Xavier Laine

„Hann fékk högg á sama ökklann. Sársaukinn minnkar með hvíld. Það er óhjákvæmilegt að það verði einhver snerting í leik. Við sjáum til síðar. Hann er að glíma við eymsli og það er ekki ákjósanlegt fyrir hann,“ sagði Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, við TF1 eftir leik en eins og fyrr segir fullyrðir L‘Equipe að nú sé búið að taka ákvörðun um að senda Mbappé heim til Madridar.

Áður var ljóst að Dembélé kæmi ekki til Íslands en hann missti einnig af leiknum við Aserbaísjan, vegna meiðsla.

Frakkar eru í toppmálum í riðli Íslands með fullt hús stiga eftir þrjár umferðir, eða níu stig. Úkraína er með fjögur stig eftir sigurinn gegn Íslandi í kvöld en Íslendingar eru með þrjú stig. Aserbaísjan er neðst með eitt stig. Efsta liðið kemst beint á HM en liðið í 2. sæti í umspil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×