Fótbolti

NFL-stjarna fjár­festir í kvenna­liði Boston

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caleb Williams, leikstjórnandi Chicago Bears, er nýjasti fjárfestirinn í Boston Legacy FC, nýju liði í bandarísku kvennaknattspyrnudeildinni.
Caleb Williams, leikstjórnandi Chicago Bears, er nýjasti fjárfestirinn í Boston Legacy FC, nýju liði í bandarísku kvennaknattspyrnudeildinni. @espnW

Caleb Williams, leikstjórnandi Chicago Bears, er nýjasti fjárfestirinn í Boston Legacy FC, nýju liði í bandarísku kvennaknattspyrnudeildinni (NWSL) sem hefur leik árið 2026.

Félagið tilkynnti um þennan nýja fjárfesti í vikunni.

Williams vann Heisman-bikarinn árið 2022 sem besti leikmaður háskólaboltans og var valinn fyrstur allra í nýliðavali NFL-deildarinnar árið 2024.

„Kvennaíþróttir eru hreyfing og ég dáist að og virði þá vinnu sem liðið og NWSL-deildin halda áfram að leggja í að efla íþróttina og styrkja komandi kynslóðir íþróttafólks,“ sagði Williams í yfirlýsingu.

„Boston Legacy Football Club er að byggja upp eitthvað sérstakt og við erum stolt af því að vera hluti af því sem er fram undan.“

Williams tekur þátt í gegnum fjárfestingarfyrirtæki sitt, 888 Midas, sem er „einstakur vettvangur fyrir fjárfestingar undir forystu íþróttafólks og ráðgjafa í einkafjárfestingum, áhættufjármagni, fasteignum og öðrum eignum.“

Hann bætist í hóp frægra fjárfesta í NWSL-félaginu sem inniheldur leikkonuna Elizabeth Banks, þrefalda Ólympíugullverðlaunahafann Aly Raisman og Aliyah Boston, stjörnu WNBA-deildarinnar og Indiana Fever. Brad Stevens, framkvæmdastjóri Celtics, og eiginkona hans, Tracy, eru einnig fjárfestar.

Jennifer Epstein, en fjölskylda hennar var lengi eigandi Celtics, er aðaleigandi og meðstofnandi Boston Legacy FC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×