Erlent

Andrés við Epstein árið 2011: „Við erum saman í þessu“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Andrés, Giuffre og Ghislaine Maxwell. Talið er að Epstein hafi tekið myndina.
Andrés, Giuffre og Ghislaine Maxwell. Talið er að Epstein hafi tekið myndina.

„Við erum saman í þessu,“ sagði Andrés Bretaprins í tölvupósti til athafna- og kynferðisbrotamannsins Jeffrey Epstein 28. febrúar 2011, þegar fjölmiðlar birtu mynd af honum, Virginiu Giuffre og Ghislaine Maxwell.

Kaflar úr tölvupóstinum voru birtir í Mail on Sunday og Sun on Sunday í gær en pósturinn vekur ekki síst athygli vegna þess að Andrés sagði í alræmdu viðtali við Newsnight á BBC árið 2019 að hann slitið á öll samskipti við Epstein  í desember 2010.

Giuffre, sem lést fyrr á árinu, sakaði bæði Epstein og Andrés um að hafa brotið gegn sér þegar hún var undir lögaldri. Andrés neitaði ásökununum og hélt því meðal annars fram að átt hefði verið við umrædda mynd, sem virðist hafa verið tekin af Epstein.

Á myndinni sést Andrés halda utan um Giuffre þegar hún var sautján ára gömul en prinsinn sagðist ekki muna eftir því að hafa hitt hana. Hann gerði engu að síður dómsátt við Giuffre árið 2022 og er talinn hafa greitt henni um það bil tvo milljarða.

„Ég hef alveg jafn miklar áhyggjur af þessu og þú!“ sagði Andrés í tölvupóstinum til Epstein árið 2011. „Ekki hafa áhyggjur af mér! Það virðist sem við séum í þessu saman og við munu rísa yfir þetta. Vertu annars í sambandi og við leikum bráðum meira!!!!“

Tölvupósturinn var lagður fram í dómsmáli þar sem Jes Staley, fyrrverandi framkvæmdastjóri Barclays, áfrýjaði niðurstöðu breska fjármálaeftirlitsins um að hann hefði sagt ósatt um tengsl sín við Epstein.

Hvorki Buckingham höll né skrifstofa Andrésar hafa tjáð sig um fréttaflutning gærdagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×