Erlent

Per­sónu­leg síma­númer þekktra ein­stak­linga birt á vefnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Persónulegt númer Donald yngri er að finna á síðunni en óvíst er hvort það er enn í notkun.
Persónulegt númer Donald yngri er að finna á síðunni en óvíst er hvort það er enn í notkun. Getty/amfAR/Ryan Emberley

Persónuleg símanúmer Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, og Donald Trump Jr., sonar Bandaríkjaforseta, eru meðal persónuupplýsinga sem finna má á opinni vefsíðu.

BBC fjallar um málið en tók þá ákvörðun að nafngreina ekki vefsíðuna.

Samkvæmt miðlinum notast síðan við gervigreind til að sópa upp upplýsingum af internetinu, sem er svo safnað saman í gagnabanka. Á síðunni segir að um sé að ræða upplýsingar um milljónir sérfræðimenntaðra einstaklinga og að hún sé notuð af ráðningarþjónustum og sölufulltrúum.

Síðan hljómar áþekk LinkedIn.

Athuganir BBC leiddu í ljós að númer Albanese er enn í notkun en óvíst er um númerið hjá Donald yngri. Blaðamenn miðilsins hringdu einnig í „meint“ númer fyrir Barack Obama, þar sem ekki var svarað, og Bill Clinton, þar sem afar ringlaður maður svaraði.

Starfsmenn Albanese hafa staðfest að þeir viti af málinu og þá sagði talsmaður stjórnarandstöðuleiðtogans Sussan Ley, hvers persónulega númer var einnig að finna á síðunni, að málið væri augljóslega áhyggjuefni og að óskað hefði verið eftir því að númerið yrði fjarlægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×