Innlent

Er­lendir aðilar stofna fölsk ís­lensk lén í annar­legum til­gangi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fer með rannsókn málsins. Vísir/Vilhelm

Útlit er fyrir að óprúttnir erlendir aðilar hafi tekið upp á því að stofna íslensk lén sem líkjast nöfnum íslenskra fyrirtækja í þeim tilgangi beita blekkingum og svíkja þannig erlenda birgja umræddra fyrirtækja. Þetta kemur í færslu á samfélagsmiðlum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem hefur málið til rannsóknar. Vitað er um að minnsta kosti þrjú slík lén sem þegar verið lokað.

Grunur er uppi um að tilgangurinn sé, líkt og áður segir, að svíkja erlenda birgja eða undirbúa svokölluð forstjórasvik, þar sem svikari fer undir fölsku flaggi og þykist vera raunverulegur viðskiptaaðili þess sem svikin beinast að, oft í þeim tilgangi að svíkja út fé eða upplýsingar.

„Upplýsingar eru um a.m.k. þrjú fölsk lén sem svipar til léna íslenskra fyrirtækja og hefur þeim þegar verrið lokað af ISNIC, skráningarstofu.is veffanga á Íslandi. Fyrirtækin sem eiga í hlut vita af málinu og hafa öryggisteymi þeirra gripið til ráðstafana til þess að koma í veg fyrir tjón hjá fyrirtækjunum og viðskiptavinum þeirra,“ segir meðal annars í færslu lögreglunnar.

„Talið er að undirbúningur þessara svikaárása hafi átt sér talsverðan aðdraganda og ekki er útilokað að fleiri fyrirtæki séu þarna undir. Lögreglan hvetur því öryggisteymi og upplýsingadeildir fyrirtækja til að vera á varðbergi,“ segir ennfremur í færslunni.

Þá hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi notið aðstoðar frá netöryggisfyrirtækinu Ambögu við rannsókn málsins, sem fyrst hafi tilkynnt um málið til lögreglu.

„Hafir þú eða teljir þig eða fyrirtæki þitt hafa orðið fyrir netglæp mælum við með því að þú tilkynnir það strax til þíns viðskiptabanka og með því að senda lögreglu tölvupóst á cybercrime@lrh.is,“ segir loks í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×