Handbolti

„Við skulum ekki tala mikið um það“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Elín Rósa Magnúsdóttir.
Elín Rósa Magnúsdóttir. Vísir/Lýður

„Það er rosa gott að koma heim og gista hjá mömmu,“ segir Elín Rósa Magnúsdóttir, landsliðskona í handbolta og einn nýjasti atvinnumaður Íslands. Hún verður í íslenska liðinu sem mætir Færeyjum í undankeppni EM 2026 í Lambhagahöllinni í kvöld.

Elín Rósa tók skrefið út í atvinnumennsku í sumar er hún skipti frá Val til Blomberg-Lippe í Þýskalandi. Þó það sé gott að koma heim í landsliðsverkefni kann hún vel við sig þar ytra.

Klippa: Frábær byrjun í Þýskalandi en tungumálið gengur hægt

„Þetta er ótrúlega góður hópur sem maður er mættur í. Það er mikill metnaður og gengið mjög vel líka, sem er stór plús. Við erum búnar að vinna alla leiki í deildinni, vonandi heldur það áfram,“ segir Elín Rósa sem er liðsfélagi tveggja landsliðskvenna; Díönu Daggar Magnúsdóttur og Andreu Jacobsen.

„Það er búið að vera ótrúlega gott að hafa Andreu og Díönu til að fá hjálp við allskonar sem manni datt ekki í hug fyrir fram. Allt þetta íbúðastúss, þetta er ekki stór bær. Maður þarf aðstoð við ýmislegt,“ segir Elín en hvernig gengur þýskan?

„Tja… við skulum ekki tala mikið um það,“ segir Elín Rósa og hlær.

Hefur eitthvað komið á óvart?

„Hvað þetta er ótrúlega góður klúbbur og haldið vel utan um mann. Þetta er mjög professional en á sama tíma mjög þægilegt,“ segir Elín sem kann vel við lífið sem atvinnumaður.

„Það er bara skemmtilegt og eitthvað sem maður stefndi alltaf að. Það er ótrúlega gaman að upplifa það, drauminn sem maður vildi alltaf lifa þegar maður var lítill.“

Fram undan eru leikir við Færeyjar hér heima í kvöld og Portúgal ytra um helgina. Það eru fyrstu tveir leikir íslenska liðsins í undankeppni EM 2026 en eru líka mikilvægir leikir fyrir breyttan landsliðshóp að stilla saman strengi fyrir HM sem fer fram í nóvember.

„Klárlega. Alltaf þegar verða miklar breytingar þá riðlast aðeins skipulag. Við verðum fljótar að slípa okkur saman, við þurfum að gera það. Það er gott að fá alvöru leiki fyrir mótið. Við einblínum á að slípa okkur saman og byggja upp sjálfstraustið saman,“ segir Elín Rósa.

Viðtalið má sjá í spilaranum.

Ísland og Færeyjar mætast klukkan 19:30 í kvöld. Leiknum verður lýst í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×