Fótbolti

HM í fót­bolta „í sam­keppni“ við HM í hand­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sádarnir ætla að halda heimsmeistaramótið 2034 á árinu 2035.
Sádarnir ætla að halda heimsmeistaramótið 2034 á árinu 2035. Getty/Francois Nel

Eins og við Íslendingar þekkjum vel þá á handboltinn oftast janúarmánuð á Íslandi en nú er útlit fyrir að handboltinn fái í framtíðinni mikla samkeppni í dimmasta mánuði ársins.

Heimsmeistaramótið í Katar árið 2022 er mörgum enn í fersku minni enda þurfti að halda mótið á miðju tímabili í evrópska fótboltanum.

Nú lítur út fyrir að HM í handbolta fái mikla samkeppni í framtíðinni því sama vandamál og í Katar er komið upp í kringum heimsmeistaramótið í fótbolta 2034 sem fer fram í Sádí Arabíu.

Heimsmeistaramótið getur ekki farið fram sumarið 2034 vegna mikils hita á Arabíuskaganum á þeim tíma ársins.

Katar færði mótið sitt til nóvember og desember en sá tími hentar ekki Sádí Arabíu af trúarlegum ástæðum.

Gianni Infantino, forseti FIFA, talaði nýlega um nauðsyn þess að hafa sveigjanleika í tímasetningu móta og nefndi þar loftslag, þétta dagskrá og trúarhátíðir sem lykilþætti.

Í framhaldinu kom fram að Sádi-Arabía ætli sér að halda heimsmeistaramótið 2034 í janúar 2035, í stað þess að það fari fram í nóvember og desember eins og venjan er.

Þetta er söguleg breyting sem gerð er til að forðast að mótið skarist við Ramadan-hátíðina.

Ákvörðunin miðar að því að tryggja að leikmenn sem eru múslímar geti keppt án takmarkana vegna föstu á daginn. Þessi fyrirhugaða breyting myndi gera þetta að fyrsta heimsmeistaramótinu sem haldið er á næsta almanaksári.

HM 2024 færi því ekki fram 2034 heldur árið 2035.

Þennan sama janúar á að fara fram heimsmeistaramót karla í handbolta. Það verður fróðlegt að sjá hvort Alþjóða handboltasambandið færi sitt HM fram eða aftur til að lenda ekki í skugganum á heimsmeistaramótinu í fótbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×