Innlent

Átta daga seinkun kostar ríkið ní­tján milljónir

Agnar Már Másson skrifar
Þegar Lindarvatn var að byggja Iceland Parliament Hotel þurfti það skyndilega að færa innganginn þar sem svæði við Víkurgarð var skyndilega friðað.
Þegar Lindarvatn var að byggja Iceland Parliament Hotel þurfti það skyndilega að færa innganginn þar sem svæði við Víkurgarð var skyndilega friðað. Vísir

Íslenska ríkið þarf að greiða fasteignafélagi í Reykjavík 19 milljónir króna í skaðabætur vegna ólömætrar skyndifriðunar Minjastofnunar árið 2019. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að hóteleigendur hafi misst af átta daga virði af leigutekjum vegna tafa sem friðunin olli.

Landsréttur kvað upp dóm í málinu í dag en Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður sýknað ríkið í málinu en fallist á að skyndifriðun á nærliggjandi kirkjugarði hafi verið ólögmæt. 

Lindarvatn ehf. hóf byggingu hótels á Landssímareitnum í janúar 2019. Hluti byggingarreitsins liggur að Fógetagarðinum, eða Víkurgarðinum, á horni Aðalstrætis og Kirkjustrætis.

Minjastofnun hafði áður friðlýst hluta Fógetagarðsins, en þann 8. janúar 2019 ákvað stofnunin að óska eftir því af Lilju Aðfreðsdóttur að hún myndi skyndifriða hluta garðsins sem náði inn á byggingarreit stefnanda. Minjastofnun dró friðlýsingartillögu sína til baka rúmum mánuði síðar.

Skúli Fógeti stendur vörð um Víkurgarð, eða Fógetagarðinn.Vísir/Vilhelm

Fulltrúar Lindarvatns töldu að skyndifriðunin væri ólögmæt, íþyngjandi og hefði verið notuð til að þvinga hann til að færa inngang hótelsins. Þeir tóku málið fyrir dóm og kröfðust skaðabóta vegna tafa á framkvæmdum og tapaðra leigutekna. Ríkið hélt því aftur á móti fram að skyndifriðunin væri lögmæt og að engin veruleg skerðing hefði átt sér stað og að tjón væri ósannað.

Héraðsdómur féllst á að skyndifriðunin hafi verið ólögmæt en vildi meina að Lindarvatn hefði ekki getað sýnt fram á orsakatengsl milli friðunarinnar og tafa á framkvæmdum. Matsgerðin sem stefnandi lagði fram var talin ófullnægjandi og byggja á óljósum forsendum.

En, eins og stundum gerist, komst Landsréttur að annarri niðurstöðu. Hann felldi sýknuna úr gildi og dæmdi íslenska ríkið skaðabótaskylt.

Landsréttur tók undir að skyndifriðunin væri ólögmæt en sagði enn fremur að hún væri brot gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Ekki hafi heimild til að skyndifriða svæði sem þegar naut lögbundinnar friðunar.

Lindarvatn varð þannig fyrir tjóni að mati dómsins, þar sem tafir á verkframvindu hafi leitt til tapaðra leigutekna í átta daga.

Íslenska ríkinu var því gert að greiða skaðabætur upp á 19.726.024 milljónir króna auk vaxta. Þá þurfi ríkið einnig að greiða sjö milljónir króna í málskostnað til Lindarvatns.

Að teknu tilliti til þess sem hér hefur verið rakið verður á það fallist að stefnda beri að greiða áfrýjanda 19.726.024 krónur í skaðabætur vegna ólögmætrar og saknæmrar friðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×