Upp­gjörið: KR - Þór Þ. 95-75 | Full­komin byrjun KR heldur á­fram

Hjörvar Ólafsson skrifar
090A0967
vísir/Anton

KR bar sigurorð af Þór Þorlákshöfn þegar liðin leiddu sama fáka sína í þriðju umferð Bónus-deildar karla á Meistaravöllum í Vesturbænum í kvöld. Lokatölur í leiknum urðu 95-75 KR-ingnum í vil sem fara vel af stað í deildinni á þessari leiktíð. 

Liðin hafa farið misvel af stað í deildinni á nýhöfnu keppnistímabili en KR hafði lagt Stjörnuna og Ármann að velli í fyrstu tveimur leikum tímabilsins en leiktíðin hófst á töpum á móti Álftanesi og ÍA hjá Þór Þorlákshöfn.

Sama sagan er eftir þennan leik og er KR með fullt hús stiga á toppnum og Þór Þorlákshöfn áfram án sigurs á botninum.

Leikurinn var í járnum í fyrstia leikhluta en það tók leikmenn beggja liða nokkurn tíma að finna fjölina sína. Að loknum fyrsta fjórðungi var staðan jöfn, 19-19, og bæði lið áttu nokkuð inni.

Gestirnir hófu annan leikhluta betur og voru með frumkvæðið framan af leikhlutanum. Um miðbik leikhlutans tóku KR-ingar hins vegar á sig rögg og góður lokakafli hjá heimamönnum skilaði því að liðið fór með 44-39 forskot inn í búningsklefann í hálfleik.

KR-ingar héldu áfram að hamra heitt járnið í upphafi þriðja leikhluta og 13 stig í röð þar hjá heimaliðinu kom því 15 stigum yfir, 57-42. Þegar þriðja leikhluta lauk var KR enn með þá forystu en staðan var 71-56 þegar farið var inn í fjórða og síðasta leikhluta.

Leikmenn KR hleyptu gestunum frá Þorlákshöfn ekki inn í leikinn í fjórða leikhluta og slógu ekkert af slagkrafti sínum. Þegar upp var staðið munaði 20 stigum á liðunum og KR-ingar enn sem komið taplausir í deildinni. 

Dómarar leiksins

Dómarar leiksins, þeir Kristinn Óskarsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson og Aron Rúnarsson, dæmdu þennan leik af stakri prýði og fá átta í einkunn fyrir vel unnin störf sín.

Stemming og umgjörð

Það var þétt setið að Meistaravöllum í kvöld og stemmingin bara með fínasta móti. Margt um manninn og gestir kvöldsins skemmtu sér vel yfir leiknum. Þá sérstaklega Vesturbæingar sem geta glaðst yfir góðri byrjun liðsins í vetur.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira