Innlent

Frétta­maður Ríkis­út­varpsins sakaður um á­reitni

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn hefur þegar látið af störfum hjá Rúv, að því er heimildir Vísis herma.
Maðurinn hefur þegar látið af störfum hjá Rúv, að því er heimildir Vísis herma. Vísir/Vilhelm

Fréttamaður á Ríkisútvarpinu hefur látið af störfum vegna ásakana um áreitni í garð kvenkyns samstarfsmanna hans.

Þetta herma heimildir Vísis en Heimildin greindi fyrst frá málinu. Í frétt Heimildarinnar segir að málið varði ásakanir þriggja kvenna á hendur starfsmanni fjölmiðilsins og að maðurinn sé í leyfi frá störfum

Heimildir Vísis herma að maðurinn sé fréttamaður og að ein kona hið minnsta hafi viðrað ásakanir um áreitni við stjórnendur ríkisfyrirtækisins. Maðurinn hafi látið af störfum þrátt fyrir að hann sé enn að finna á lista yfir starfsmenn Ríkisútvarpsins.

Heiðar Örn Sigurfinnsson, fréttastjóri Rúv, segist í samtali við Vísi ekki geta tjáð sig að nokkru leyti um starfsmannamál.

Ekki hefur náðst í Stefán Eiríksson útvarpsstjóra við vinnslu fréttarinnar. Í frétt Heimildarinnar er haft eftir honum að almennt séð, komi fram kvartanir í garð einstakra starfsmanna, sem geti fallið undir gildissvið reglugerðar um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum, fari málið í viðeigandi farveg, þar á meðal að gættum fyrirmælum reglugerðarinnar auk viðbragðsáætlunar Rúv vegna málefna af þessu tagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×