Erlent

Neitar enn að hleypa nýrri þingkonu að

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Johnson og Adelita Grijalva.
Mike Johnson og Adelita Grijalva. AP

Mike Johnson, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, neitar enn að gera nýkjörinni þingkonu kleift að taka sér sæti á þingi. Rétt tæpur mánuður er síðan hún var kjörin í embætti en Johnson hefur ekki leyft henni að sverja embættiseið.

Adelita Grijalva sigraði í kosningum í Arizona í Bandaríkjunum eftir að þingmaðurinn Raul Grijalva lést. Hann var faðir hennar og hafði setið í fulltrúadeildinni fyrir Demókrataflokkinn í tólf kjörtímabil, eða 24 ár. Hún er einnig Demókrati.

Þótt hún hafi verið kjörin á þing þann 23. september, með nærri því sjötíu prósentum atkvæða, hefur hún ekki fengið að sverja embættiseið og taka við embættinu en Johnson hefur ekki kallað saman þing síðan þá, þó hann gæti það hæglega. Rekstur alríkisins hefur verið stöðvaður vegna þess að Demókratar og Repúblikanar hafa ekki komið sér saman um fjárlög en þrátt fyrir það hefur Johnson ekki viljað kalla þing saman.

Sjá einnig: Trump og „maðurinn með ljáinn“ hóta að greiða ekki laun

Johnson hefur verið harðlega gagnrýndur af Demókrötum vegna þessa og hefur því meðal annars verið haldið fram að þingforsetinn hafi ekki þorað að kalla saman þing vegna Epstein-skjalanna svokölluðu.

Grijalva hefur lýst því yfir að þegar hún tekur sér sæti sitt á þingi muni hún bæta nafni sínu við lista þingmanna sem krefjast þess að haldin verði atkvæðagreiðsla um það hvort þingið eigi að krefjast þess að dómsmálaráðuneytinu að öll skjöl þess sem tengja Jeffrey Epstein og máli hans verði afhent þinginu.

Í viðtali um helgina varði Johnson þá ákvörðun sína að kalla ekki saman þing. Þá vísaði hann til þess að Nancy Pelosi, forveri sinn, hefði beðið í 25 daga með að leyfa þingmanni Repúblikanaflokksins að sverja embættiseið. Þá var dagsetningin að vísu valin af þingmanninum sjálfum en ekki Pelosi.

Epstein-málið og umrædd skjöl hafa valdið miklum deilum innan Repúblikanaflokksins. Þegar til stóð að halda slíka atkvæðagreiðslu í sumar sendi Johnson þingmenn í staðinn snemma í sumarfrí.

Með því að bæta nafni sínu við áðurnefndan lista mun Grijalva í raun þvinga Johnson til að halda þessa atkvæðagreiðslu. Fregnir hafa borist af því að Hvíta húsið hafi beitt þingmenn Repúblikanaflokksins sem hafa sett nafn sitt á listann miklum þrýstingi svo þeir dragi undirskrift sína til baka.

Johnson heldur því fram að ákvörðun hans um að boða ekki til þingfundar og leyfa Grijalva að taka sér sæti sitt á þingi komi Epstein-skjölunum ekkert við.

Hefur ekki aðgang að nauðsynlegum kerfum

Á blaðamannafundi í Washington í morgun sagði Johnson að í stað þess að brúka sig á TikTok ætti Grijalva að þjóna kjósendum sínum. Hún ætti að svara símtölum þeirra og reyna að hjálpa þeim í gegnum þá krísu sem Demókratar hafa, samkvæmt Johnson, valdið með því að samþykkja ekki fjárlög Repúblikana.

Það á Grijalva hins vegar erfitt með að gera þar til hún er búin að sverja embættiseiðinn. Skrifstofu hennar í kjördæmi hennar er lokað, þar sem hún er formlega séð ekki orðin þingkona, og hefur ekki fjármagn til að reka skrifstofuna. Þá hefur Grijalva ekki aðgang að opinberum kerfum eða tölvu sinni og þar að auki hefur hún ekki greiðan aðgang að þinghúsinu og þarf að bíða í röð með ferðamönnum til að komast þar inn.

Þegar hún kemst inn, þá hefur hún aðgang að skrifstofu sinni en þar hefur hún ekki aðgang að tölvum eða prenturum. Hún og starfsfólk hennar hafi ekki aðgang að nauðsynlegum kerfum eða öðru sem er þeim nauðsynlegt til að sinna störfum þeirra.

Í myndbandi sem hún birti í lok síðustu viku spurði Grijalva hvernig hún ætti að þjónusta fólkið í hennar kjördæmi, eins og Johnson hafi sagt, þegar hún geti ekki starfað á skrifstofu sinni.

Í viðtali við NBC um helgina sagði Grijalva að hún væri viss um að Johnson væri að fíflast með hana.

Demókratar gagnrýna Johnson

Demókratar hafa krafist þess að Johnson boði stuttan þingfund og geri Grijalva kleift að sverja embættiseið, svo hún geti loksins hafið störf og unnið fyrir kjósendur sína í Arizona.

Hakeem Jeffries, sem leiðir Demókrata í fulltrúadeildinni, sendi Johnson bréf í síðustu viku þar sem hann benti á að Johnson hefði gripið til slíkra aðferða þegar nýir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa þurft að taka sér sæti sitt á þingi. Þetta hafi til dæmis verið gert innan sólarhrings eftir að tveir Repúblikanar frá Flórída unnu sérstakar kosningar í apríl.

Þá segir NBC frá því að Kris Mayes, ríkissaksóknari Arizona, hafi hótað því að höfða mál gegn Johnson. Hann hafi brotið gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna og svipt rúmlega átta hundruð þúsund kjósendur í Arizona fulltrúa þeirra á þingi.

Johnson gaf lítið fyrir þá hótun í samtali við blaðamenn á föstudaginn. Hann sakaði Mayes um að reyna að stofna til sjónarspils og að vekja athygli á sjálfri sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×