Erlent

Hafa drepið 34 í á­rásum á meinta smyglara

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Hegseth vísar til hinna meintu smyglara sem hryðjuverkamanna. 
Hegseth vísar til hinna meintu smyglara sem hryðjuverkamanna.  AP

Bandaríkjaher felldi tvo í loftárás á bát með meinta fíkniefnasmyglara innanborðs á alþjóðlegu hafsvæði Kyrrahafinu í gærkvöldi. Árásin er sú áttunda sem herinn gerir á rúmum mánuði í herferð Bandaríkjastjórnar gegn fíkniefnasmygli en sú fyrsta þar sem skotum er beint að bát á Kyrrahafinu.

Pete Hegseth varnarmálaráðherra Bandaríkjanna staðfesti þetta á samfélagsmiðlum í dag og vísaði til hinna látnu sem hryðjuverkamanna. Í heildina hafi nú að minnsta kosti 34 látist í loftárásum Bandaríkjahers á meinta fíkniefnasmyglara. 

„Eiturlyfja-hryðjuverkamenn sem hafa hug á að færa okkur eitur finna hvergi örugga höfn á þessu jarðarhálfhveli. Alveg eins og Al Qaeda herjaði á föðurlandið okkar eru þessir bátar að herja á landamæri okkar og fólk,“ segir í færslunni, þar sem Hegseth vísar til stríðsins gegn hryðjuverkum sem Bandaríkjastjórn lýsti yfir í kjölfar hryðjuverkaárásanna 11. september 2001. 

Í myndskeiðinu hér að ofan, sem Hegseth deidli á X, sést þegar bátur hálffullur af brúnum kössum springur í loft upp á miðri ferð. 

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur réttlætt loftárásirnar með því að segja Bandaríkin eiga í vopnuðum átökum gegn eiturlyfjasmyglurum og lýst þeim sem ólöglegum vígamönnum.

Trump hefur margsinnis sagt að ólögleg fíkniefni sem komi til Bandaríkjanna með umræddum bátum, sér í lagi fentanýl, séu að eitra fyrir bandarísku þjóðinni. Fentanýl berst aftur á móti til Bandaríkjanna í gegnum landamæri þeirra við Mexíkó, samkvæmt umfjöllun AP

Bandaríkjaher kom sér upp óvenjulega stórum herflota á Karabíska hafinu og undan ströndum Venesúela í sumar. Stækkunin vakti spurningar um hvort Trump væri með þessu að gera tilraun til að steypa Nicolás Maduro forseta Venesúela af stóli, að því er kemur fram í umfjöllun AP. Maduro sætir ákæru fyrir fíkniefnabrot í Bandaríkjunum. 


Tengdar fréttir

Drápu þrjá í annarri árás á meinta smyglara

Bandaríski herinn grandaði í morgun báti á alþjóðlegu hafsvæði nærri Suður-Ameríku þar sem talið var að fíkniefni væru innanborðs. Donald Trump Bandaríkjaforseti segir þrjá hafa fallið í árásinni en tæpar tvær vikur eru síðan ellefu voru drepnir í sams konar árás. 

Felldu ellefu í árás á bát meintra smyglara frá Venesúela

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gær að hann hefði skipað bandaríska hernum að granda hraðbát í sunnanverðu Karíbahafi sem bar fíkniefni. Ellefu menn eru sagðir hafa verið um borð í bátnum á vegum fíkniefnasamtakanna Tren de Arague, frá Venesúela.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×