Viðskipti innlent

Getur tekið ein­stæða for­eldra allt að á­tján ár að safna fyrir í­búð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Það getur reynst einstæðum foreldrum á leigumarkaði afar erfitt að komast í eigið húsnæði.
Það getur reynst einstæðum foreldrum á leigumarkaði afar erfitt að komast í eigið húsnæði. Getty

Það getur tekið einstaklinga á leigumarkaði ellefu ár að safna fyrir útborgun í litla íbúð á höfuðborgarsvæðinu og átján ár fyrir einstæða foreldra. Þetta segir í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þar segir einnig að fyrir barnlaust par tæki það tæp tvö ár.

Miðað við forsendur greiningar HMS myndi tíminn styttast nokkuð ef séreignarsparnaði væri ráðstafað til kaupanna en þá myndi það taka einstakling sjö ár að safna fyrir útborgun, einstætt foreldri tæp níu ár og barnlaust par eitt og hálft ár.

HMS

„Líkt og sjá má á myndinni að ofan tekur það allar fjölskyldugerðir lengri tíma að safna fyrir útborgun í dag en það tók þær árin 2017, 2019 og 2021. Þetta skýrist að hluta til af því að hámarksveðsetningarhlutfall fyrstu kaupenda var lækkað úr 90% niður í 85% árið 2022. Fyrstu kaupendur þurfa því að safna hærra hlutfalli af kaupverði íbúða til þess að geta keypt sér íbúð í dag samanborið við fyrir 2022,“ segir í skýrslu HMS.

Þá hafði það ekki síður áhrif hversu mikið húsnæðisverð hefur hækkað og að laun hafi ekki náð að halda í við verðhækkanir á fasteignamarkaði. 

Í töflunni hér fyrir neðan má sjá þær forsendur sem miðað er við.

HMS

Útgjöld samanstanda af neysluútgjöldum og húsaleigu og þá er miðað við 40 til 70 fermetra íbúð fyrir einstakling en 60 til 90 fermetra íbúð fyrir einstætt foreldri og barnlaus hjón. Gert er ráð fyrir að einstaklingar fái húsnæðisbætur og einstæð foreldri húsnæðis- og barnabætur.

„Miðað við framangreindar forsendur má áætla að einstaklingar geti lagt um 70 þúsund krónur til hliðar á mánuði, barnlaus pör um 467 þúsund krónur og einstæð foreldri einungis 44 þúsund krónur.“

Áætlað verð á fermetrann eru 851 þúsund krónur.

Hér má finna skýrslu HMS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×