Erlent

Fyrr­verandi drottning Taí­lands er látin

Samúel Karl Ólason skrifar
Sirikit, fyrrverandi drottning Taílands árið 2007.
Sirikit, fyrrverandi drottning Taílands árið 2007. AP/Misha Japaridze

Sirikit, fyrrverandi drottning Taílands, er látin. Hún var mjög vinsæl í Taílandi vegna vinnu hennar í þágu fátækra og umhverfisverndar svo eitthvað sé nefnt. Konungsfjölskyldan tilkynnti andlát drottningarinnar fyrrverandi í morgun.

Sirikit var 93 ára gömul og lést á sjúkrahúsi en hún mun hafa fengið blóðeitrun þann 17. október. Henni tókst ekki að jafna sig.

Hún hafði ekki sést oft á almannafæri eftir að hún fékk slag árið 2012. Eiginmaður hennar, konungurinn Bhumibol Adulyadej, lést árið 2016.

AP fréttaveitan segir að Maha Vajiralongkorn, núverandi konungur og sonur Sirikit, hafi tilkynnt að móðir sín myndi fá konunglega útför og að hirð konungsfjölskyldunnar muni syrgja í eitt ár.

Kona heldur á mynd af konungshjónunum gömlu í Bangkok.AP/Sakchai Lalit

Anutin Charnvirakul, forsætisráðherra, segir andlát drottningarinnar fyrrverandi vera mikinn missi fyrir þjóðina. Flaggað verði í hálfa stöng við allar opinberar byggingar í mánuð og að opinberir starfsmenn muni einnig syrgja í eitt ár.

Konungsfjölskylda Taílands hefur forðast það að taka afstöðu í pólitískum málum en AP segir mikla umræðu hafa átt sér stað um skoðanir og afstöðu drottningarinnar. Sérstaklega árið 2008 eftir að hún mætti í útför mótmælanda sem hafði dáið í átökum við lögregluþjóna. Þá litu margir á mætingu hennar til marks um að hún væri að taka afstöðu með mótmælendum.

Hér að neðan má sjá myndband frá því þegar Sirikit og konungurinn heimsóttu England árið 1966.

Kynntist konunginum í París

Sirikit fæddist árið 1932 í efnaða fjölskyldu í Bangkok. Það var sama ár og konungsfjölskylda landsins missti almenn völd sín í Taílandi. Eftir seinni heimsstyrjöldina flutti hún til Frakklands með föður sínum, sem var þá sendiherra.

Þar kynntist sextán ára Sirikit nýkrýndum konungi Taílands og verðandi eiginmanni sínum. Þau giftu sig svo árið 1950 og eignuðust fjögur börn. Það voru þau Maha Vajiralongkorn, núverandi konungur, og prinsessurnar Ubolratana, Sirindhorn og Chulabhorn.

Konungshjónin vörðu miklum tíma í að tækla innlend vandamál í Taílandi, auk þess sem þau ferðuðust um heiminn í opinberum heimsóknum.

Drottningin var þekkt fyrir að heimsækja þorp víðsvegar um landið og ræða við íbúa um vandamál þeirra og væntingar. Hún er sögð hafa hlustað vel, hvort sem vandamálin þóttu lítilvæg eða ekki.

Auk þess að berjast gegn fátækt og fíkniefnaneyslu varði Sirikit miklu púðri í að halda við hefðbundinni handavinnu í Taílandi. Þúsundir Taílendinga fengu þjálfun hjá stofnun sem hún stofnaði í því að vefja silki, gera hefðbundna skartgripi, mála og fleiru.

Í viðtali við AP árið 1979 sagði Sirikit að þó margir teldu konungsfjölskyldur börn síns tíma teldi hún að Taílandi þyrfti á konungi að halda. Skilningsríkum konungi sem hlustaði á þjóð sína.

„Það eru einhverjir töfrar í orðinu konungur. Það er yndislegt.“

Bhumibol konungur (til hægri), Sirikit drottning og sonur þeirra Vajiralongkorn, núverandi konungur, þá þrettán ára gamall, árið í Bretlandi árið 1966.AP/Harris



Fleiri fréttir

Sjá meira


×