Viðskipti innlent

Til­kynntu Terra og Kubb eftir fundi með sveitar­fé­lögum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Vísir/Arnar

Neytendasamtökin sendu inn ábendingu til samkeppnisyfirvalda vegna fyrirtækjanna Terra og Kubbs eftir að grunur vaknaði um að fyrirtækin væru að skipta á milli sín mörkuðum. Formaður samtakanna lítur málið grafalvarlegum augum.

Á fimmtudag réðist Samkeppniseftirlitið í aðgerðir í samvinnu við lögregluna og héraðssaksóknara vegna ætlaðra brota fyrirtækjanna Terra og Kubbs á samkeppnislögum. Ráðist var í húsleitir á níu stöðum og sex voru handteknir í aðgerðunum en öllum var sleppt að loknum skýrslutökum. 

Rannsóknin snýst að útboðum sveitarfélaga vegna sorphirðu en samkvæmt heimildum fréttastofu er til rannsóknar hvort fyrirtækin hafi viljandi hætt við þátttöku í útboðum og hvort þau hafi skipt á milli sín markaðssvæðum.

Kvörtuðu eftir fundi með sveitarfélögum

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna segir fréttir af aðgerðunum ekki hafa komið á óvart og hann líti málið grafalvarlegum augum.

„Við eigum í góðum samskiptum við sveitarfélög og höfum fundað með þeim í gegnum tíðina og það verður að segjast að þetta kemur kannski ekki alveg á óvart. Við höfum á þessum fundum fengið grunsemdir um það að þessi fyrirtæki hafi verið að skipta á milli sín markaðnum. Við tilkynntum það um leið til Samkeppniseftirlitsins,“ sagði Breki í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Ekki á hverjum degi sem er ráðist í húsleitir og fólk handtekið“

Hann segir allt samráð miða að því að hækka verð og veita verri þjónustu. Stóralvarlegt sé ef einhverjir ætli að koma í veg fyrir samkeppni.

„Sér í lagi að það gengu í gildi ný lög árið 2023 um sorphirðu þar sem sorphirðugjald er gert miklu sýnilegra fyrir neytendur og fólk er að borga fyrir það sem það hendir. Að sama skapi er það þeim mun alvarlegra ef einhverjir ætla að skipta á milli sín markaðnum eða koma í veg fyrir almenna samkeppni,“ bætti Breki við.

Hann segir samkeppni vera eina helstu vörn neytenda og þegar grafið er undan henni sé vegið að neytendum. Mikilvægt sé að gott samtal sé á milli samkeppnisyfirvalda og samfélagsins svo hægt sé að kom ábendingum til eftirlitsins sem vinni svo úr þeim með sínum hætti.

„Þetta er meint brot en það er ekkert á hverjum degi sem er ráðist í húsleitir og fólk handtekið þannig að við lítum þetta grafalvarlegum augum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×