Erlent

Van de Velde bannað að ferðast til Ástralíu til að keppa á heims­meistara­mótinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Van de Velde var 19 ára þegar hann nauðgaði 12 ára gamalli breskri stúlku.
Van de Velde var 19 ára þegar hann nauðgaði 12 ára gamalli breskri stúlku. Getty/Pim Waslander

Stjórnvöld í Ástralíu hafa neitað strandblakaranum Steven van de Velde um að koma inn í landið, þar sem hann hugðist keppa á heimsmeistaramótinu í Adelaide.

Van de Velde, sem er frá Hollandi, játaði árið 2016 að hafa nauðgað 12 ára gamalli breskri stúlku. Hann hitti stúlkuna á Facebook og ferðaðist frá Amsterdam til Milton Keynes á Englandi árið 2014, þar sem hann braut gegn stúlkunni á heimili hennar.

Van de Velde var 21 árs þegar hann var fundinn sekur og dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Hann afplánaði hins vegar aðeins í tólf mánuði og hóf aftur keppni í strandblaki, meðal annars með landsliðinu.

Heimsmeistaramótið fer fram í næsta mánuði en fyrir tveimur vikum reit ríkissaksóknarinn í Suður-Ástralíu erindi til stjórnvalda, þar sem hann hvatt þau til að neita van de Velde um vegabréfsáritun vegna „ógeðslegra“ glæpa hans.

Van de Velde spilaði fyrir Holland á Ólympíuleikunum í París í fyrra, við mikla óánægju. Um 90 þúsund manns höfðu áður skrifað undir ákall um að banna honum þátttöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×