Fótbolti

Gleði­fréttir fyrir Argentínu­menn: Messi vill spila á HM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi með HM-styttuna eftir að Argentína varð heimsmeistari í Katar 2022.
Lionel Messi með HM-styttuna eftir að Argentína varð heimsmeistari í Katar 2022. Getty/Marc Atkins

Lionel Messi skrifaði nýverið undir þriggja ára framlengingu á samningi sínum við Inter Miami og nú hefur hann einnig tilkynnt að hann sé tilbúinn að spila með argentínska landsliðinu á heimsmeistaramótinu næsta sumar.

Messi verður þó aðeins með á HM 2026 ef hann verður hundrað prósent heill.

Messi sagði í viðtali við NBC á mánudag að hann myndi taka endanlega ákvörðun út frá því hvernig honum líður í líkamanum áður en hann ákveður hvort hann geti spilað á HM sem Bandaríkin, Mexíkó og Kanada halda eftir rúmt hálft ár.

„Það er eitthvað sérstakt við það að geta tekið þátt í HM og ég myndi elska það,“ sagði Messi, sem verður 39 ára í júní næstkomandi. ESPN segir frá.

„Mig langar að vera þar, vera í góðu formi og vera mikilvægur hluti af því að hjálpa landsliðinu mínu. Ég mun meta þetta dag frá degi þegar ég byrja undirbúninginn með Inter Miami á næsta ári. Svo þarf ég að sjá hvort ég geti virkilega verið hundrað prósent, hvort ég geti verið gagnlegur fyrir hópinn og landsliðið, og svo taka ákvörðun,“ sagði Messi.

Messi hefur skorað 114 mörk í 195 landsleikjum en þar af eru 13 mörk í 26 leikjum í úrslitakeppni HM.

Messi á leikjametið á HM og markametið er sextán mörk (Miroslav Klose).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×