Fótbolti

Real Madrid mun ekki refsa Vinícius Júnior

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vinicius Junior var mjög ósáttur eftir að Xabi Alonso tók hann af velli í leik Real Madrid og Barcelona.
Vinicius Junior var mjög ósáttur eftir að Xabi Alonso tók hann af velli í leik Real Madrid og Barcelona. Getty/Alberto Gardin

Real Madrid mun ekki refsa eða setja brasilíska knattspyrnumanninn Vinícius Júnior í leikbann vegna öfgafullra viðbragða og leiðinda leikmannsins eftir að honum var skipt út af í EL Clásico-leiknum á móti Barcelona á sunnudaginn.

Brasilíski landsliðsmaðurinn var mjög reiður eftir ákvörðun Xabi Alonso þjálfara um að taka hann út af velli á 72. mínútu. Brassanum Rodrygo var skipt inn á fyrir hann. Real Madrid vann leikinn 2-1.

Vinícius strunsaði í framhaldinu af vellinum og niður leikmannagöngin áður en hann sneri aftur á bekkinn. Hann var mættur aftur þangað til að taka þátt í átökum við leikmenn Barça við lokaflautið. Vinícius fékk gult spjald fyrir það.

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um samband Alonso og Vinícius eftir atvikið en búist er við að þeir muni ræða saman þegar leikmenn Real Madrid snúa aftur til æfinga í dag.

Þótt félagið hafi valið það að refsa ekki Vinícius fyrir atvikið er Alonso þjálfara frjáls að taka þær ákvarðanir sem hann vill.

Viðræður um nýjan samning við stjörnuframherjann hafa ekki borið árangur undanfarna mánuði en núverandi samningur hans rennur út árið 2027.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×