Fótbolti

Viktor Bjarki skoraði og lagði upp í fyrsta byrjunar­liðs­leiknum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Bjarki fagnar marki sínu ásamt Liam West sem lagði það upp.
Viktor Bjarki fagnar marki sínu ásamt Liam West sem lagði það upp. FCK

Hinn 17 ára gamli Viktor Bjarki Daðason byrjaði sinn fyrsta leik fyrir FC Kaupmannahöfn þegar liðið sótti Hobro heim í dönsku bikarkeppninni í fótbolta. Hann gerði raunar gott betur en það, skoraði Viktor Bjarki eitt af fjórum mörkum FCK ásamt því að leggja upp annað.

Viktor Bjarki hefur komið sem stormsveipur inn í lið FCK en hann lagði upp mark í sínum fyrsta leik fyrir félagið og gerði svo gott betur þegar hann kom inn af bekknum gegn Borussia Dortmund í Meistaradeild Evrópu. Þar skoraði hann sitt fyrsta mark og varð um leið þriðji yngsti markaskorari í sögu Meistaradeildarinnar.

Á ekki það mörgum mínútum hafði Viktor Bjarki bæði skorað og lagt upp fyrir aðallið FCK. Það kom því ef til vill ekki það mikið á óvart þegar hann var valinn í byrjunarliðið gegn Hobro sem situr í fallsæti B-deildarinnar í Danmörku. Á sama tíma var markvörðurinn Rúnar Alex Rúnarsson á varamannabekknum.

Þó hinn tvítugi Youssoufa Moukoko - kollegi Viktors Bjarka í framlínunni - steli fyrirsögnunum í kvöld með þrennu á innan við klukkustund. Annað mark hans kom eftir undirbúning Viktors Bjarka.

Heimamenn minnkuðu muninn undir lok venjulegs leiktíma en í uppbótatíma skoraði Viktor Bjarki fjórða mark gestanna, lokatölur 1-4.

Í fjórum leikjum með aðalliði FCK hefur Viktor Bjarki nú skorað tvö mörk og gefið tvær stoðsendingar. Ágætis tölfræði það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×