Körfubolti

Ótrú­leg dramatík í Garða­bæ og á Sauð­ár­króki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Rebekka Rut var frábær í liði KR líkt og svo oft áður.
Rebekka Rut var frábær í liði KR líkt og svo oft áður. Vísir/Anton Brink

Baráttan á toppi Bónus deildar kvenna í körfubolta þegar fimm umferðum er lokið er hreint ótrúleg. KR og Stjarnan unnu ótrúlega nauma útisigra til að halda í við topplið Grindavíkur á meðan Haukar voru ekki í neinum vandræðum.

Keflavík sótti Stjörnuna heim í Garðabæinn í leik sem var talinn eiga að vera formsatriði fyrir gestina þar sem Stjörnukonur höfðu tapað öllum sínum leikjum til þessa í deildinni.

Annað átti eftir að koma á daginn og var það heimaliðið sem landaði sínum fyrsta sigri á tímabilinu eftir ótrúlegar lokamínútur. Lokatölur í Garðabæ 78-73 og Stjarnan komin á blað.

Shaiquel Mcgruder var allt í öllu hjá Stjörnunni. Hún skoraði 27 stig, tók 10 fráköst og gaf eina stoðsendingu. Eva Wium Elíasdóttir kom þar á eftir með 18 stig, fjögur fráköst og jafn margar stoðsendingar. Hjá Keflavík var Keishana Washington með 18 stig, sjö fráköst og fimm stoðsendingar.

Nýliðar KR hafa byrjað mótið vel en lentu í miklum vandræðum á Sauðárkróki. Leikurinn var í járnum nær allan leikinn og skiptust liðin á að hafa forystu allt þangað til í blálokin. Þá voru það gestirnir úr vesturhluta Reykjavíkur sem reyndust sterkari og unnu á endanum fjögurra stiga sigur, lokatölur 69-73.

Marta Hermida var mögnuð í liði Tindastóls. Hún skoraði 32 stig, gaf 7 stoðsendingar og tók 3 fráköst. Madison Anne Sutton skoraði 21 stig, tók 12 fráköst og gaf tvær stoðsendingar. Hjá KR var Molly Kaiser stigahæst með 23 stig. Hún tók einnig fimm fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Rebekka Rut Steingrímsdóttir kom þar á eftir með 20 stig, þrjú fráköst og jafn margar stoðsendingar.

Haukar áttu í engum vandræðum með Hamar/Þór í Ólafssal í Hafnafirði, lokatölur 103-77. Hjá Haukum var Amandine Justine Toi í sérflokki með 34 stig ásamt þremur stoðsendingum og tvö fráköstum. Sólrún Inga Gísladóttir kom þar á eftir með 15 stig, þrjú fráköst og tvær stoðsendingar.

Jadakiss Nashi Guinn var best í liði gestanna með 37 stig ásamt því að gefa fimm stoðsendingar og taka jafn mörg fráköst.

Að lokum vann Valur öruggan útisigur á nágrönnum sínum í Ármanni, lokatölur 69-87. Khiana Nickita Johnson var stigahæst í tapliðinu með 15 stig. Hún gaf fjórar stoðsendingar og tók tvö fráköst. Hjá Val var Reshawna Rosie Stone stigahæst með 25 stig, sjö fráköst og tvær stoðsendingar.

Staðan í deildinni er þannig að Grindavík, Njarðvík, KR og Valur hafa öll unnið fjóra af fyrstu fimm leikjum sínum. Hamar/Þór er á botninum án stiga á meðan Stjarnan, Ármann og Tindastóll hafa aðeins unnið einn leik hver.

Stöðutöfluna má sjá í heild sinni vef KKÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×