Innlent

Engar upp­sagnir í far­vatninu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fyrirtækið þarf á starfsmönnum að halda til að geta komið framleiðslunni aftur í gang.
Fyrirtækið þarf á starfsmönnum að halda til að geta komið framleiðslunni aftur í gang.

Enn sem komið er eru engin áform uppi um uppsagnir starfsmanna Norðuráls á Grundartanga, þrátt fyrir alvarlega bilun sem kom upp í verksmiðjunni í síðustu viku. Þá stendur ekki annað til en að verksmiðjan verði rekin á fullum afköstum þegar viðgerðum hefur verið lokið.

Frá þessu greinir Morgunblaðið og hefur eftir Haraldi Benediktssyni, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar. Haraldur var meðal sveitarstjórnar- og þingmanna sem sátu fund með Gunnari Gunnlaugssyni, forstjóra Norðuráls, á þriðjudag. 

Rætt var um bilunina á fundinum, aðdraganda hennar og mögulegar úrlausnir. Unnið er að pöntun á hlutum sem vantar til viðgerðar. Það myndi skýrast á næstu tveimur vikum hversu lengi framleiðsla myndi liggja niðri og hvaða áhrif bilunin myndi hafa á önnur verkefni.

„Þeir sögðust þurfa á starfsmönnunum að halda; heilmikið væri af verkefnum sem biðu, þar á meðal standsetning verksmiðjunnar á nýjan leik. Mikilvægt væri að halda í vant og þjálfað starfsfólk; það væri grundvöllurinn að farsælli gangsetningu verksmiðjunnar,“ hefur Morgunblaðið eftir Haraldi.

Haraldur segir fundarmenn hafa verið ánægða með svörin sem þeir fengu og að þeir hefðu góða tilfinningu gagnvart framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×