Fótbolti

Nýr þjálfari Juventus er með Napoli-húðflúr

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luciano Spalletti mun örugglega passa sig að vera í síðaerrma bolum á hliðarlínunni og fela með því húðflúrið.
Luciano Spalletti mun örugglega passa sig að vera í síðaerrma bolum á hliðarlínunni og fela með því húðflúrið. Getty/Alessandro Bremec

Luciano Spalletti er tekinn við sem nýr þjálfari stórliðs Juventus en það gæti verið erfitt fyrir stuðningsmenn félagsins að líta fram hjá sterkum tengslum nýja þjálfarans við erkifjendurna í Napoli. Myndarlegt húðflúr hjálpar vissulega ekki til.

Spalletti tekur við starfi Króatans Igor Tudor sem var rekinn eftir aðeins átta mánuði í starfi. Spalletti er með samning út þetta tímabil en samkvæmt ítölskum fjölmiðlum verður samningurinn sjálfkrafa framlengdur ef Spalletti kemur Juventus í Meistaradeildina.

Juventus hefur ekki unnið ítölsku deildina síðan 2020, þegar félagið vann sinn níunda titil í röð. Eins og staðan er núna er liðið í sjöunda sæti. Tudor var rekinn eftir átta leiki án sigurs og þrjá tapleiki í röð. Juventus er níunda ítalska félagið sem Spalletti þjálfar. Hann er þekktastur fyrir að hafa leitt Napoli til deildarmeistaratitils árið 2023.

Spalletti stýrði síðast ítalska landsliðinu. Hann gegndi því starfi í tæp tvö ár. Því lauk eftir vandræðalegt 3-0 tap gegn Noregi í undankeppni HM á Ullevaal í júní. Svo skemmtilega vill til að hann er aftur á leiðinni til Noregs á næstunni því Juventus mætir Bodö/Glimt í Meistaradeildinni 25. nóvember næstkomandi.

Það er þó húðflúr Spalletti sem hefur komist í fréttirnar á Ítalíu.

Eftir að hafa bundið enda á 33 ára bið Napoli eftir að vinna ítalska meistaratitilinn árið 2023 lét Spalletti húðflúra merki þeirra á vinstri handlegg sinn.

Juventus og Napoli eiga í einum frægasta ríg ítalska fótboltans og eru svarnir óvinir. Óánægðir stuðningsmenn Juventus heimata nú að nýr stjóri Juventus láti fjarlægja húðflúrið

Þegar hinn 66 ára gamli stjóri kom til Continassa, æfingasvæðis Juventus, hvatti hópur stuðningsmanna hann til að fjarlægja húðflúrið og setja „J“ í staðinn. Hvort hann láti verða af því er ekki vitað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×