Erlent

Orðin hæsta kirkja í heimi

Atli Ísleifsson skrifar
Milljónir ferðamanna heimsækja Sagrada Familia í Barcelona á hverju ári.
Milljónir ferðamanna heimsækja Sagrada Familia í Barcelona á hverju ári. EPA

Kirkjan Sagrada Familia í Barcelona á Spáni varð í gær hæsta kirkja heims þegar byrjað var að koma fyrir neðri hluta kross á miðturni kirkjunnar. Framkvæmdir við kirkjuna Sagrada Familia hófust árið 1882 og standa enn yfir.

Sagrada Familia er þar með orðin 162,91 metrar á hæð og einum metra hærri en dómkirkjan í Ulm í suðurhluta Þýskalands sem hefur um árabil borið titilinn „hæsta kirkja í heimi“.

EPA

Dómkirkjan í Ulm var í byggingu á árunum 1543 til 1890 og mælist 161,5 metrar á hæð. Sagrada Familia er nú einum metra hærri en reiknað er með að framkvæmdum á miðturninum ljúki á næsta ári og verði kirkjan þá 172 metrar.

Það var arkitektinn Antoni Gaudi sem hannaði Sagrada Familia en hann reiknaði aldrei með að sjá hana fullkláraða. Einungis var búið að reisa einn turn kirkjunnar þegar Gaudi lést árið 1926.

Neðsta hluta krossins á miðturni kirkjunnar var komið fyrir í gær. EPA

Áætlanir gera ráð fyrir að framkvæmdum við miðturninn ljúki á næsta ári, þegar hundrað ár verða liðin frá dauða Gaudi. Áfram verður þó unnið að gerð ytra byrði kirkjunnar og innan í henni og er reiknað með að framkvæmdum ljúki á næstu tíu árum.

Mikill fjöldi ferðamanna heimsækir kirkjuna á hverju ári, en á síðasta ári voru þeir um 4,9 milljónir talsins.

Dómkirkjan í Ulm er ekki lengur hæsta kirkja í heimi.Wikipedia Commons



Fleiri fréttir

Sjá meira


×