Skoðun

Dauðs­föll í Gaza-stríðinu og Mogginn

Egill Þórir Einarsson skrifar

Dauðsföll í stríðinu á Gaza sem staðið hefur í 2 ár eru, skv. upplýsingum heilbrigðisyfirvalda á staðnum (Gaza Health Ministry), komin yfir 70 þús. manns. Vitað er að fjöldi fólks er grafið í rústum og talið er að heildartala látinna sé yfir 100 þús. Fjöldi slasaðra er einnig yfir 100 þús. manns og hvergi í heiminum eru fleiri sem misst hafa útlim miðað við fólksfjölda alls um 5 þúsund manns. Um 80 % þeirra sem látist hafa eru almennir borgarar og þar af er um 60 % konur, börn og aldraðir. Skv. þessari heimild er fjöldi skráðra drepinna í stríðinu á Gaza 68.234 þ. 22. október 2025 og þar af eru 18.500 börn eða 27,1 %. Fjöldi drepinna á Vesturbakkanum á sama tíma er 1002 manns, þar af 212 börn eða 21,1 %.

Tímaritið Lancet telur dauðsföll í opinberum tölum vanmetin um 41 % þar sem eingöngu eru taldir þeir sem látast í hernaðaraðgerðum. Ekki er meðtalinn fjöldi þeirra sem látast af sárum sínum, þeir sem látast af sjúkdómum vegna skorts á heilbrigðisþjónustu og þeir sem látast vegna hungurs eða annarra afleiðinga stríðsins. Þúsundir deyja af sjúkdómum og konur vegna barnsfæðinga. Ef önnur dauðsföll eru tekin með í reikninginn áætlar tímaritið að í maí 2025 hafi dauðsföll, sem tengjast stríðinu, verið um 93 þús. sem samsvarar um 4-5 % af íbúafjölda Gaza.

Þótt tölum um dauðsföll beri ekki alveg saman er varleg áætlun að heildarfjöldinn sé á bilinu 70-100 þús. Meðal þeirra dauðsfalla sem átt hafa sér stað á Gaza eru:

  • 217 fréttamenn
  • 120 háskólakennarar
  • 224 hjálparstarfsmenn (þ.á.m. starfsmenn UNRWA)

Skv. ísraelskum heimildum féllu 1195 Ísraelsmegin í árásum Hamas þ. 7. október 2023 og þar af voru 36 börn eða 1,8 % og til viðbótar hafa 788 látist í stríðsátökunum, aðallega hermenn, og er heildartalan þeim megin 1.983 manns.

Tölfræðilegir útreikningar sýna hlutföllin Palestínumenn/Ísraelar:

  • Heildarfjöldi látinna í stríðinu: 35-faldur munur
  • Heildarfjöldi látinna almennra borgara: 67-faldur munur
  • Heildarfjöldi látinna barna: 520-faldur munur
  • Fréttamenn og hjálparstarfsmenn hafa eingöngu látist Palestínu megin

Á meðfylgjandi súluriti er sundurliðun dauðsfalla fyrir Gazabúa og íbúa Vesturbakkans annars vegar og Ísraela hins vegar. Fram kemur fjöldi látinna barna, almennings og heildarfjöldi látinna. Dauðsföll hjá Ísrael örlítið brot af því sem er hjá Palestínu, sem er í takt við fyrri átök þar sem dauðsföll hjá Palestínu eru 10-30 föld m.v. Ísrael. Tölurnar tala sínu máli um mat á mannslífum þar sem Ísraelar telja sig hafa orðið fyrir miklu mannfalli þ. 7. október en það er vart mælanlegt á súluritinu. Sama má segja um samanburð á þessum aðilum vegna fangelsana. Þar er eina viðmiðið þeir 251 gíslar sem Hamas tóku þ. 7. október 2023 en fangar Ísraela skipta þúsundum og þar á meðal er fjöldi barna sem Ísrael hefur fangelsað án dóms og líkja má við gíslatöku. Einnig er athyglisvert að sjá mannfall sem orðið hefur á Vesturbakkanum meðan á stríðinu í Gaza hefur staðið þótt ekkert stríð sé þar í gangi. Þótt það sé um helmingur dauðsfalla hjá Ísrael á sama tíma hefur það nánast ekkert ratað í fréttir.

Á næsta súluriti er svo yfirlit yfir dauðsföll eftir mánuðum þau 2 ár sem stríðið hefur staðið. Fram kemur að heildarfjöldi drepinna hefur sveiflast eftir tímabilum og var á bilinu 5-8 þúsund manns fyrstu mánuðina og hélst nokkuð stöðugur í 1-2000 manns og jókst síðan í síðasta hluta stríðsins í 2-4000 en hefur aldrei verið undir 1000 manns á mánuði, jafnvel þau tímabil þar sem vopnahlé átti að vera í gildi.

Hvað ályktanir má draga af þessum tölum?

Tölurnar tala sínu máli og sýna ójöfnuð milli stríðandi fylkinga af óþekktri stærð. Því er hæpið að kalla þessi átök „stríð“ og betur hæfa orð eins og „aftökur“ eða „þjóðarmorð“ eins og búið er að skilgreina þau. Því kemur á óvart hvernig eina starfandi dagblað landsins fjallar um stríðið á Gaza. Í forystugrein Morgunblaðisins mánudaginn 27. október segir:

„Loks verður að nefna að þó að gyðingaandúð sé líklega ekki jafn útbreidd nú í Evrópu og var fyrir tæpri öld virðist stundum eima eftir af henni, jafnvel hér á landi. Þetta birtist iðulega í viðhorfum gagnvart Ísrael og því skilningsleysi sem gyðingar þar mæta þegar þeir verjast ítrekuðum og hatursfullum árásum sem staðið hafa yfir linnulítið frá því að ríkið var stofnað, skömmu eftir helförina. Vissulega beita þeir stundum hörku en þá verður að hafa í huga að þeir eru að eiga við vel vopnaða hryðjuverkamenn sem hafa notið ríkulegs stuðnings og beita almenningi miskunnarlaust sér til varnar, en Ísraelsmenn reyna í þessum átökum að hlífa almenningi. Þess vegna er líka yfirgengilegt þegar menn leyfa sér að líkja baráttu Ísraela eftir fjöldamorð hryðjuverkaárásar Hamas fyrir tveimur árum við helförina, þar sem milljónir voru myrtar með skipulegum hætti og þar sem tilgangurinn var sá að útrýma miklum fjölda fólks“.

Er andúð á framferði Ísraelsmanna í Palestínu, þar sem tugir þúsunda almennra borgara eru myrtir undir því yfirskini að verið sé að ráða niðurlögum Hamas, gyðingaandúð ? Þar sem 60 % allra látinna eru börn, konur og aldraðir og 70 % látinna er drepinn á heimilum sínum. Þar sem fjöldi þeirra sem drepinn er er 35-faldur þeirra sem falla hinum megin víglínunnar. Sú harka sem þeir telja sig beita gegn hryðjuverkamönnum felst í drápi á konum börnum og öldruðum og að þeir hlífi almenningi er skopstæling í besta falli. Þar sem linnulausar loftárásir dynja á heimilum fólks með tilviljunarkenndu skotmarki, þótt í opinberum yfirlýsingum séu Ísraelsmenn að „verjast“. Búið er að hefna svo rækilega fyrir atburðina 7. október að þegar hafa Ísraelar drepið 500-falt fleiri börn en þar létust. Í Morgunblaðinu er gagnrýnt að atburðunum á Gaza sé líkt við helförina en lýsingin sem á eftir fer er einmitt það sem flestir, sem vilja sjá, upplifa á Gaza. Á fjölmiðill sem beitir fyrir sig lygum og ómerkilegheitum af þessu tagi sér uppreisnarvon?

Höfundur er verkfræðingur og áhugamaður um mannréttindi.




Skoðun

Sjá meira


×