Fjármagnið sem Spesía hefur núna sótt sér verður nýtt í vöruþróun og markaðssókn en ásamt því að kynna til leiks hagstæðari kjör á sparnaðarleiðum segist félagið ætla að bjóða betri notendaupplifun. Vegna mikillar umfram eftirspurnar af hálfu fjárfesta var ákveðið að stækka útboðið úr 300 í 400 milljónir króna.
Sparnaðarvörur Spesíu verða sjóðir sem kaupa alþjóðleg verðbréf, fyrir hönd sparifjáreigenda, með mikilli áhættudreifingu. Spesía byggir á sjálfvirkni og verður með litla yfirbyggingu.
Það er mikil synd að þau sem hafa ráðrúm til að spara, geti ekki með auðveldum og ódýrum hætti sett sparnaðinn í öruggt alþjóðlegt verðbréfasafn.
Stofnendur Spesíu eru þau Georg Lúðvíksson, áður kenndur við Meniga, sem er forstjóri, Tómas Áki Gestsson fjárfestingarstjóri, Bergur Ebbi vaxtarstjóri, Peter Short tæknistjóri og Tinna Karen Gunnarsdóttir sem leiðir þróun Spesíu-appsins.
Bergur Ebbi segir að gamla bankakerfið eins og við höfum þekkt það sé smám saman að leysast upp. „Með nútímatækni má fækka milliliðum og valdefla almenning, til dæmis þegar kemur að verðbréfakaupum. Það er mikil synd að þau sem hafa ráðrúm til að spara, geti ekki með auðveldum og ódýrum hætti sett sparnaðinn í öruggt alþjóðlegt verðbréfasafn.”
Leiðandi fjárfestir í hlutafjárútboði Spesíu var félag sem hjónin Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis, og Fanney Hermannsdóttir standa að en rúmlega tuttugu fjárfestar, einkum einstaklingar og fjölskyldufyrirtæki, tóku þátt í útboðinu. Meðal þeirra voru einnig Margrét Guðmundsdóttir stjórnarmaður í Eimskip og fyrrverandi stjórnarmaður í Festi, Kristján G. Jóhannsson stjórnarformaður Hraðfrystihússins Gunnvarar og kona hans Inga S. Ólafsdóttir, Skúli Gunnar Sigfússon, oftast kenndur við Subway, og Halldór Friðrik Þorsteinsson stofnandi HF Verðbréfa, Keldunnar og Alfreðs.
Lausn sem hefur lengi vantað á Íslandi
Guðmundur Fertram, sem tekur sæti í stjórn Spesíu, undirstrikar að það séu að eiga sér stað miklar tækniframfarir í bankaþjónustu. Kostnaður er að lækka, hindranir hverfa og almenningur fær betri aðgang að fjármálaþjónustu með lausnum eins og Spesíu.
„Sem einn af fyrstu fjárfestum í Indó hef ég séð hversu fagnandi Íslendingar tóku nýrri tæknilausn fyrir launareikninga, sparifé á íslenskum bankareikningi og kortanotkun erlendis – án gengisálags. Tæknilausn Spesíu mun gera íslenskum sparifjáreigendum kleift að fjárfesta á mjög einfaldan máta í erlendum verðbréfum með mikilli áhættudreifingu. Ég treysti Spesíu teyminu vel til að útfæra þessa lausn fyrir Íslendinga og öðlast traust almennings á þessu sviði.”
Að okkar mati er almenningur á Íslandi þvingaður inn á þessa sparireikninga því aðrir valkostir eru ekki nógu aðgengilegir og það gildir hvort sem vaxtastig er hátt eða ekki.
Georg Lúðvíksson, forstjóri Spesíu, segir afar hvetjandi að finna þann mikla áhuga sem var meðal fjárfesta á að taka þátt í nýafstöðnu hlutafjárútboði félagsins.
„Við kláruðum fjármögnunina á mettíma og sóttum meira fjármagn en upphaflega var lagt upp með. Við stofnuðum Spesíu til að búa til lausn sem okkur hefur lengi fundist vanta á Íslandi. Lausn sem flestir fjármálaráðgjafar mæla með, sem er að fjárfesta í ódýru og vel dreifðu alþjóðlegu eignasafni. Sögulega hafa slík eignasöfn skilað margfalt betri ávöxtun til lengri tíma en sparnaðarreikningar eða hlutabréfasjóðir með háum gjöldum, auk þess sem þau verja íslenska sparifjáreigendur fyrir hugsanlegum áföllum í íslenska hagkerfinu.”
Spesía er að koma inn á eignastýringarmarkaðinn á sama tíma og verðbólga hefur verið þrálát og vaxtastigið af þeim sökum afar hátt. Hlutabréfasjóðir hafa því flestir hverjir verið í varnarbaráttu um langt skeið, sem hefur einkennst af útflæði og gengislækkunum, og almenningur hefur frekar leitað með fjármagn sitt á innlánsreikninga í bönkunum sem bjóða nálægt sjö prósenta vexti. Innlán heimilanna eru því í hæstu hæðum og nema núna um 1.800 milljörðum króna.
Er þetta rétt tímasetning fyrir Spesíu til að koma inn á þennan markað núna þegar almenningur virðist enn vera fremur fráhverfur því að fjárfesta í hlutabréfum?
„Að okkar mati er almenningur á Íslandi þvingaður inn á þessa sparireikninga því aðrir valkostir eru ekki nógu aðgengilegir og það gildir hvort sem vaxtastig er hátt eða ekki. Það er hægt að gera miklu betur. Það er alltaf góð tímasetning fyrir góða valkosti fyrir almenning,“ segir Georg í viðtali við Innherja.
Kostnaður við að fjárfesta í íslenskum verðbréfasjóðum, sem er iðulega meiri en þekkist hjá erlendum sjóðastýringarfélögum, hefur stundum verið gagnrýndur en algengt er hann geti verið – þegar allt er talið – á bilinu um tvö til þrjú prósent í sjóðum sem fjárfesta í hlutabréfum. Að undanförnu hefur mátt merkja þróun í þátt hjá sumum sjóðastýringarfélögum hér heima, meðal annars hjá Stefni nýlega, að bregðast við með lækkun á gjöldum.
Kostnaðurinn við að fjárfesta beint í erlendum vísitölusjóðum getur verið í kringum 0,2 prósent. Hvar verður þetta hlutfall í sjóðunum sem Spesía er að fara bjóða upp á?
„Spesía er meira tæknifyrirtæki en fjármálafyrirtæki og byggir á sjálfvirkni og lítilli yfirbyggingu gagngert til að geta boðið mun lægri gjöld en gengur og gerist. Við getum gert miklu betur en það sem núna er í boði hér heima, bæði í verðum og notendaupplifun,“ að sögn Georgs.
Hvaða skilaboð er verið að senda þegar þér er sagt að þú þurfir að eiga 100 milljónir króna til að einhver nenni að setjast niður með þér og setja saman fjárfestingastefnu.
Þið eruð að koma með vöru, erlenda vísitölusjóði, sem í flestum tilfellum er hægur leikur fyrir almenning og aðra fjárfesta að kaupa beint í sjálfir. Hvað eruð þið að fara bjóða upp á umfram þá sem fær íslenska fjárfesta frekar til að velja Spesíu?
„Það er dýrt fyrir almenning að kaupa erlenda vísitölusjóði af íslensku fyrirtækjunum. Að nota erlendar lausnir er heldur alls ekki fyrir alla. Spesía ætlar að gera Íslendingum auðveldara að fjárfesta í verðbréfasafni sem byggir á slíkum sjóðum en það sem við bjóðum umfram er persónuleg fjármálaráðgjöf. Þjónusta Spesíu er meira í ætt við eignastýringu en bein kaup í vísitölusjóðum.
„Ætlum að verða alvöru þátttakendur“ á eignastýringarmarkaðinum
Eruð þið þá aðallega að horfa til almennra fjárfesta í markaðssetningu ykkar, eða einnig stofnana- og fagfjárfesta?
„Almenningur hefur verið sveltur þegar kemur að möguleikanum á að fjárfesta. Það er ekki síst vegna aðgengismála, þóknana og hás flækjustigs,“ að mati Georgs, og bætir við:
„Hvaða skilaboð er verið að senda þegar þér er sagt að þú þurfir að eiga 100 milljónir króna til að einhver nenni að setjast niður með þér og setja saman fjárfestingastefnu, annars þurfir þú að gera þetta allt sjálfur? Við viljum breyta þessu og bjóða almenningi með í leikinn. Við erum því meira að horfa til almennra fjárfesta en við teljum þó að ýmsir fagfjárfestar muni einnig leita til okkar enda hafa þeir þekkinguna til að sjá að okkar fjárfestingaleiðir eru ekkert síðri en þær sem þarf í dag að borga himinhá gjöld til að fá aðgengi að í hefðbundinni eignastýringu.“
Hvaða væntingar hafið þið horft til næstu tveggja til þriggja ára um stærð heildareigna í stýringu hjá Spesía?
„Félagið er fjármagnað til nokkurra ára svo við þurfum ekki að flýta okkur um of. Við viljum vanda okkur í hverju skrefi og vaxa jafnt og þétt því það tekur tíma að ávinna sér traust. Við horfum til lengri tíma, rétt eins og fólk á að gera í fjárfestingum sínum. Að því sögðu teljum við þó að eftir þrjú ár séum við orðnir alvöru þátttakendur á eignastýringarmarkaðinum.“
Arnar Þór verður stjórnarformaður
Í stjórn Spesíu eftir hlutafjáraukninguna sitja nú: Tómas Áki Gestsson fyrir hönd stofnenda, Guðmundur Fertram fyrir hönd fjárfesta, Arnar Þór Másson fyrir hönd fjárfesta en hann er líka einn þeirra og Líney Arnórsdóttir sem óháður stjórnarmaður. Líney er markaðsstjóri bandaríska fjártæknifyrirtækisins Cleo en Arnar er stjórnarmaður að aðalstarfi og situr meðal annars í stjórnum Símans og JBT Marel. Hann hefur verið kjörinn stjórnarformaður Spesíu.
Góð samskipti voru aðalráðgjafar Spesíu í hlutafjárútboðinu og LOGOS veitti lögfræðiráðgjöf.
