Lífið

Leik­konan Diane Ladd er látin

Samúel Karl Ólason skrifar
Diane Ladd með barnabörnum sínum tveimur og Lauru Dern, dóttur sinni.
Diane Ladd með barnabörnum sínum tveimur og Lauru Dern, dóttur sinni. AP/Jordan Strauss

Leikkonan Diane Ladd er látin. Hún var 89 ára gömul og lést á heimili sínu í Kaliforníu í gær samkvæmt yfirlýsingu frá dóttur hennar, leikkonunni Lauru Dern til Hollywood Reporter.

Í yfirlýsingunni kallaði Dern móður sína hetju en sagði ekki hvað dró hana til dauða.

Ladd lék í fjölda kvikmynda og sjónvarpsþátta í gegnum árin og er hún skráð með 134 verk á IMDB.

Hún var þrisvar sinnum tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir leik sinn í myndunum Wild at heart, Alice doesn‘t live here anymore og Rambling rose, sem Dern lék einnig í. Þær voru fyrstu mæðgurnar til að vera tilnefndar til Óskarsverðlauna fyrir að leika í sömu myndinni en hvorug þeirra hlaut verðlaunin. Ladd lék móður dóttur sinnar einnig í þáttunum Enlightended.

Hér að neðan má sjá frægt atriði hennar úr myndinni Wild at Heart, sem hún var tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir.

Henni brá einnig fyrir í þáttum eins og Bráðavaktinni, L.A. Law og Young Sheldon. Hún lék einnig í kvikmyndum eins og Chinatown og National Lampoon's Christmas Vacation.

Í frétt BBC segir að Ladd hafi verið gift leikaranum Bruce Dern frá 1960 til 1969. Þau eignuðust tvær dætur, Lauru og Diane Elizabeth, sem dó af slysförum þegar hún var átján mánaða gömul, árið 1962.

Þá sagði hún í viðtali árið 2023 að hún hefði reynt að fá dóttur sína til að finna sér annan feril en leiklistarferil. Hún hafi eingöngu verið ellefu ára gömul og Ladd sagðist hafa viljað að dóttir sín yrði frekar læknir eða lögmaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.