Fótbolti

Of kalt til að Ís­land geti mætt Noregi og Sví­þjóð

Sindri Sverrisson skrifar
Diljá Ýr Zomers og stöllur í íslenska landsliðinu freista þess að komast inn á HM í Brasilíu. Ísland hefur aldrei komist á HM kvenna í fótbolta.
Diljá Ýr Zomers og stöllur í íslenska landsliðinu freista þess að komast inn á HM í Brasilíu. Ísland hefur aldrei komist á HM kvenna í fótbolta. vísir/Anton

Það ræðst í hádeginu í dag hvaða þjóðum Ísland mætir í undankeppninni fyrir HM kvenna í fótbolta sem fram fer í Brasilíu sumarið 2027. Ísland er eitt fárra landa sem ákveðnar skorður gilda um fyrir dráttinn.

Eftir stórsigurinn í einvíginu við Norður-Írland í síðasta mánuði er ljóst að Ísland leikur í A-deild undankeppninnar á næsta ári. Þar leika 16 bestu lið Evrópu, í fjórum fjögurra liða riðlum, og eiga þau mesta möguleika á að komast á HM (sjá skýringar að neðan).

Ísland er í þriðja styrkleikaflokki fyrir dráttinn í dag, ásamt Danmörku, Austurríki og Póllandi, og getur því ekki lent í riðli með þeim þjóðum.

UEFA hefur auk þess skilgreint Ísland, Noreg (styrkleikaflokkur 2) og Svíþjóð (styrkleikaflokkur 1) sem lönd með „vetrarvelli“. Það er að segja lönd þar sem miðlungs eða mikil hætta er talin á erfiðum aðstæðum í vetrarleikjum.

Til að draga úr hættunni á að veður hafi áhrif á leiki eða að þeim verði frestað getur Ísland því ekki lent með bæði Noregi og Svíþjóð í riðli, heldur aðeins öðru liðanna. Komi upp sú staða að tvö liðanna lendi saman í riðli og það þriðja dragist svo í þann riðil mun því liði verða komið fyrir í næsta mögulega riðli.

Það er alveg skiljanlegt að UEFA setji Ísland í áhættuflokk vegna veðurs. Fresta þurfti leiknum við Norður-Írland um sólarhring, skipta um völl og skafa mikinn snjó af Þróttarvelli til að hægt væri að spila í október.vísir/Anton

UEFA setur einnig þær skorður að Bosnía og Kósovó geti ekki lent saman í riðli, né heldur Aserbaísjan og Armenía, vegna deilna ríkjanna.

Drátturinn hefst klukkan 12 í dag en hér að neðan má sjá styrkleikaflokkana í A-riðli og skýringar á undankeppninni.

Flokkur 1:

  • Frakkland
  • Þýskaland
  • Spánn
  • Svíþjóð

Flokkur 2:

  • Holland
  • England
  • Ítalía
  • Noregur

Flokkur 3:

  • Danmörk
  • Austurríki
  • Ísland
  • Pólland

Flokkur 4:

  • Slóvenía
  • Serbía
  • Úkraína
  • Írland

Ísland mun svo spila sex leiki í sínum riðli og eru þetta leikdagarnir, með fyrirvara um minni háttar tilfærslur:

  • Leikdagur 1: Þriðjudagurinn 3. mars
  • Leikdagur 2: Laugardagurinn 7. mars
  • Leikdagur 3: Þriðjudagurinn 14. apríl
  • Leikdagur 4: Laugardagurinn 18. apríl
  • Leikdagur 5: Föstudagurinn 5. júní
  • Leikdagur 6: Þriðjudagurinn 9. júní

Leiðin á HM

Í undankeppninni komast liðin fjögur sem vinna sinn riðil í A-deild beint á HM. Það er eini möguleikinn til að komast beint á HM úr undankeppninni.

Öll hin liðin sem spila í A-deild komast í umspil, svo að Ísland er öruggt um að komast að minnsta kosti í umspil um sæti á HM.

Það fara reyndar mjög mörg lið í umspilið eða alls 32. Þar af eru 12 lið úr A-deild, 12 úr B-deild og 8 úr C-deild, en umspilið er klárlega „þægilegast“ fyrir lið sem enda í 2. og 3. sæti í A-deild því þau mæta þá ekki neinu af 12 bestu liðum Evrópu.

Hvernig virkar HM-umspilið?

HM-umspilið er nokkuð flókið og skiptist í tvo hluta og tvær umferðir, og eitt Evrópulið mun svo meira að segja þurfa að fara enn lengra eða í umspil með liðum úr öðrum heimsálfum.

Fyrri umferðin í umspili:

  • Leið eitt: Liðin átta í 2.-3. sæti riðlanna í A-deild spila við liðin sex sem vinna sinn riðil í C-deild og tvö sem ná bestum árangri í 2. sæti í C-deild.
  • Leið tvö: Liðin fjögur sem enda neðst í A-deild og liðin fjögur sem enda efst í B-deild spila við liðin átta sem enda í 2. og 3. sæti í B-deild.

Um verður að ræða einvígi þar sem hærra skráða liðið spilar seinni leikinn á heimavelli.

Seinni umferðin í umspili:

  • Sigurliðin úr leið eitt í fyrri umferð mæta sigurliðunum úr leið tvö.

Sigurliðin í seinni umferðinni komast svo á HM, fyrir utan eitt sem mun þurfa að halda áfram í umspil með liðum úr öðrum heimsálfum.

Evrópa mun þannig eiga 11 eða 12 lið á HM í Brasilíu.

Ísland hefur aldrei komist á HM en var grátlega nálægt því að komast á HM í Eyjaálfu 2023, þegar í fyrsta sinn voru 32 þjóðir með. Liðið var fyrst hársbreidd frá því að enda efst í sínum riðli en fékk á sig mark á þriðju mínútu uppbótartíma gegn Hollandi í Utrecht, og tapaði svo í framlengdum leik gegn Portúgal í umspili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×