Erlent

Á­kváðu að vera opin gagn­vart börnunum varðandi veikindin

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vilhjálmur heimsótti Brasilíu í tengslum við afhendingu Earthshot umhverfisverðlaunanna.
Vilhjálmur heimsótti Brasilíu í tengslum við afhendingu Earthshot umhverfisverðlaunanna. Getty/Aaron Chown

Prinsinn af Wales hefur greint frá því að hann og Katrín, eiginkona hans, hafi tekið þá ákvörðun að vera opin og hreinskilin við börn sín varðandi veikindi Katrínar og Karls III, afa barnanna.

Katrín og Karl greindust bæði með krabbamein í fyrra en ekki hefur verið gefið upp hvers konar krabbamein var um að ræða.

„Allar fjölskyldur ganga í gegnum erfiðleika og áskoranir. Það er mjög persónubundin og veltur svolítið á augnablikinu hvernig þú tekst á við það,“ sagði Vilhjálmur í samtali við brasilíska sjónvarpsmanninn Luciano Huck í Rio de Janeiro í síðustu viku.

Prinsinn sagði þau hjónin hafa valið að eiga opinská samtöl við börnin sín, þar sem það virkaði sjaldnast að reyna að fela hlutina fyrir þeim.

Hjónin eiga Georg, 12 ára, Karlottu, 10 ára, og Lúðvík, sjö ára.

Vilhjálmur sagði að stundum upplifði hann að hann væri að deila of miklu með börnunum sínum en oftast væri það hjálplegt að ræða málin við börnin og tala um tilfinningar þeirra. Það hjálpaði þeim að setja hlutina í stærra samhengi, í stað þess að vekja hjá þeim streitu með því að fela hlutina frá þeim.

„Það vekur mun fleiri spurningar þegar þau fá ekki svör,“ sagði prinsinn. Þetta væri hins vegar jafnvægislist; að ákveða hversu miklu foreldrar ættu að deila með börnunum og á hvaða tímapunkti.

Vilhjálmur ræddi einnig internetnotkun barna sinna og sagði þau ekki hafa fengið síma. Líklega þyrfti Georg hins vegar að fá síma á næstunni en með takmörkunum. Börn hefðu of mikinn aðgang að alls konar efni á netinu sem þau þyrftu ekki að sjá.

Karl er enn í meðferð við krabbameininu en Katrín á batavegi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×