Handbolti

Bjarki Már minnti ræki­lega á sig í Meistara­deildinni

Aron Guðmundsson skrifar
Það fékk Bjarka Má ekkert stöðvað í Meistaradeildinni í kvöld.
Það fékk Bjarka Má ekkert stöðvað í Meistaradeildinni í kvöld. Vísir/Getty

Bjarki Már Elísson minnti rækilega á sig með Vezprém í sigurleik í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld. 

Vezprém heimsótti norska liðið Kolstad í sjöundu umferð Meistaradeildarinnar og fór heim til Ungverjalands með tvö stig eftir öruggan fjórtán marka sigur, 43-29. 

Bjarki Már fór mikinn í leiknum og endaði sem markahæsti leikmaður vallarins með átta mörk og hundrað prósent skotnýtingu.

Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði þrjú marka Kolstad í leiknum og þá fékk Sigurjón Guðmundsson að spreyta sig í marki liðsins í nokkrar mínútur. Sigvaldi Björn Guðjónsson og Sveinn Jóhannsson voru ekki í leikmannahópi Kolstad í kvöld. 

Með sigrinum tyllir Vezprém sér í þriðja sæti A-riðils með átta stig, fjórum stigum á eftir toppliði Fusche Berlin sem á leik til góða. Kolstad er í sjöunda sæti þessa átta liða riðils með tvö stig. 

Bjarki Már var ekki valinn í íslenska landsliðið í síðasta verkefni liðsins en vonast væntanlega til þess að landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson hafi verið að horfa í kvöld nú þegar styttist í næsta stórmót. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×