Handbolti

Vissi ekki að hann hafði ekki klikkað á skoti: „Það er bara geggjað“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Garðar Ingi Sindrason skoraði úr öllum 13 skotum sínum í kvöld.
Garðar Ingi Sindrason skoraði úr öllum 13 skotum sínum í kvöld. Vísir/Anton Brink

Garðar Ingi Sindrason var maður kvöldsins í Kaplakrika er hann skoraði 13 mörk úr 13 skotum í 13 marka sigri FH gegn KA.

„Þetta var bara frábært í kvöld og frábært svar eftir síðasta leik sem var bara lélegur, sérstaklega sóknarlega, og við göngum stoltir frá þessum leik,“ sagði Garðar eftir 45-32 sigur FH gegn KA í 10. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

Hann segist þó ekki hafa verið meðvitaður um að hvert eitt og einasta af 13 skotum hans hafi endað í netinu í kvöld.

„Það er bara geggjað. Og að klikka ekki á skoti, ég vissi það ekki,“ sagði Garðar léttur, áður en hann fór yfir það hvað FH sem lið hafi gert rétt í leik kvöldsins gegn KA-liði sem hefur farið vel af stað í vetur.

„Við spilum bara frábæran sóknarleik. Vörnin var líka bara fín og í takt við leikinn. KA-menn eru búnir að vera heitir og eru í toppbaráttunni þannig þetta var bara gríðarlega sterkur sigur.“

Þrátt fyrir frammistöðu Garðars, og FH, í kvöld vill hann þó halda sér á jörðinni.

„Við erum bara að reyna að finna jafnvægi og ná að verða stabílir. Í síðasta leik duttum við aðeins niður, þannig nú þarf bara að ná að tengja saman leiki,“ sagði Garðar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×