Körfubolti

ÍA sækir Kanann sem Ár­mann losaði

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Dibaji Walker verður leikmaður ÍA.
Dibaji Walker verður leikmaður ÍA. vísir

Dibaji Walker verður leikmaður ÍA í Bónus deild karla en hann var leystur undan samningi hjá Ármanni í gær.

Birkir Guðjónsson, stjórnarformaður körfuknattleiksdeildar ÍA, staðfesti tíðindin í samtali við Vísi.

Walker er búinn að semja við Skagamenn en það þarf að sækja um nýtt atvinnuleyfi fyrir hann, enda mun hann nú starfa fyrir nýjan vinnuveitanda. Hann verður því ekki með liði ÍA í útileiknum gegn Keflavík í kvöld.

Walker leysir Bandaríkjamanninn Darnell Cowart af hólmi, hann tók þátt í fyrstu fimm leikjum tímabilsins en var látinn fara og spilaði ekki í tapinu gegn Val í síðustu umferð, sem var fyrsti heimaleikur Skagamanna í nýja íþróttahúsinu við Jaðarsbakka.

Keflavík mun hins vegar frumsýna nýjan leikmann í kvöld, slóvenska framherjann Mirza Bulic, sem gekk til liðs við Keflavík á dögunum eftir að hinn breski Jordan Williams meiddist í baki og fór frá félaginu.

Leikur Keflavíkur og ÍA hefst klukkan 19:30 og verður í beinni útsendingu á Sýn Sport Ísland 4. 

Skiptiborðið á Sýn Sport Ísland mun fylgjast með öllum fjórum leikjum kvöldsins í Bónus deild karla. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×