Lífið

Öl­gerðin lítur Orkutal „öfgahægrisins“ al­var­legum augum

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Ölgerðin segir Egils Orku hvorki í samstarfi við Sverri Helgason né Bjórkastið. Hér til hliðar má sjá annan stjórnanda hlaðvarpsins, Jón Þormar Pálsson.
Ölgerðin segir Egils Orku hvorki í samstarfi við Sverri Helgason né Bjórkastið. Hér til hliðar má sjá annan stjórnanda hlaðvarpsins, Jón Þormar Pálsson.

Ölgerðin segist ekki vera í samstarfi við Bjórkastið eða stjórnanda þess, Sverri Helgason, í tengslum við orkudrykkinn Egils Orku. Sverrir lýsti drykknum sem opinberum drykk „íslenska öfgahægrisins“ og hafa aðrir gantast með að hann tengist hvítri kynþáttahyggju.

Heimildin greindi frá því í morgun að Ölgerðin hefði neitað fyrir samstarf við hlaðvarpið og liti málið alvarlegum augum. 

Sverrir Helgason, einn fjögurra stjórnanda Bjórkastsins, lýsti því yfir á samfélagsmiðlinum X í byrjun október að „hvít orka“ væri „official drykkur íslenska öfgahægrisins.“ Með hvítri orku er átt við Flona II með ferskjubragði, annað samstarf Ölgerðarinnar við rapparann.

Sverrir komst nýlega í fréttirnar eftir að hann sagði sig úr stjórn ungra Miðflokksmanna eftir að hann sagði það ekki skipta sig máli að vera kallaður rasisti. Hann lýsti því sjálfur að hann væri kynþáttaraunsæismaður.

„Dyggðaskreyttasta fyrirtæki landsins“ með hvítu orkuna

Eins og nafnið ber með sér er bjór drukkinn í Bjórkastinu en síðustu vikur hefur hvít orka verið á borðum hlaðvarpsins í miklu magni.

Sverrir tvítaði um miðjan síðasta mánuð myndbandi af bíl Ölgerðarinnar og skrifaði við það: „Hvað er í gangi hérna? Tesla frá ölgerðinni merkt hvítri orku! Þetta hlýtur að vera hundaflauta.“

Arnar Arinbjarnarson deildi færslunni og skrifaði: „Skemmtilegt að Ölgerðin, dyggðaskreyttasta fyrirtæki landsins, komi með Hvíta orku á markað. Ég bara varð að prófa.“

Arnar deildi þessari mynd af Orkunni.

Með færslunni fylgdi mynd af Orku og Donald Trump og hlekkur á Wikipedia-síðu um „White power,“ slagorð þeirra sem trúa á yfirburði hvítra.

Heimildin hafði samband við Ölgerðina til að spyrjast fyrir um hvort fyrirtækið væri um að drykkurinn væri tengdur íslenska öfgahægrinu á samfélagsmiðlum. Ölgerðin svaraði Heimildinni svo:

„Orka er ekki í neinu samstarfi við þáttastjórnandann né þáttinn sjálfan og það að hann hafi valið að hafa þessa vöru hjá sér, er á engan hátt með vitund eða vilja okkar. Við lítum þetta alvarlegum augum.“

Segir ristjórn Heimildarinnar andlega krypplinga

Sverrir brást við fréttaflutningi Heimildarinnar á X í hádeginu: „Þetta er ógeðslega fyndið, þetta lið á gaymildinni er svo LN og heimskt, þeir skilja ekki neitt.“

Sverrir Helgason er virkur á X-inu.Youtube

„Sem er samt líka viðbúið, þeir sem eru LN geta ekki skilið þá sem eru LU, þeir eru of raped af þessu libba hugarfari, algjörir andlegir krypplingar,“ skrifaði hann einnig.

Með hugtakinu „LN“ er átt við „lengst niðri“ sem er öfugt við „LU“ eða „lengst uppi“ sem er orðið útbreitt hugtak meðal hægrimanna á X. Af því tilefni hefur sami hópur byrjað að gantast með LU-kex rétt eins og Egils Orku. Heimildin var með fréttaskýringu í morgun um notkun íslenskra hægrimanna á þessum vörum.

Ef notkun „lengst uppi“ er skoðuð aftur í tímann á miðlinum X sést að vinirnir Bergþór Másson og Aron Kristinn hófu að nota það í lok árs 2024. Þar er ekki annað að sjá en að um afbökun á rapphugtakinu „we up“ sé að ræða og hugtakið merki þá að einhverju gangi vel.

Jóhann Kristófer gaf út lagið „Uppi“ með Daniil í sumar en viðlag þess tengist klifun á orðasambandinu „Við erum uppi“. Vinsældir lagsins leiddu til útbreiðslu orðasambandsins og frá því í haust hafa hægrimenn á X-inu verið ötulir við að nota það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.