Fótbolti

Jafnaði við Arnór og Rík­harð á marka­listanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Albert Guðmundsson smeygir sér framhjá Rahman Dashdamirova í leik Aserbaísjans og Íslands í gær.
Albert Guðmundsson smeygir sér framhjá Rahman Dashdamirova í leik Aserbaísjans og Íslands í gær. getty/Aziz Karimov

Albert Guðmundsson skoraði sitt fjórtánda landsliðsmark í sigrinum á Aserbaísjan í gær. Með því jafnaði hann við tvær gamlar landsliðshetjur.

Albert kom Íslandi yfir á 20. mínútu í leiknum í Bakú í gær. Hann skoraði þá eftir góða sendingu frá Ísaki Bergmann Jóhannessyni.

Þetta var fjórða mark Alberts í síðustu fjórum landsleikjum sem hann hefur spilað.

Alls hefur hann skorað fjórtán mörk fyrir landsliðið og með markinu í Bakú í gær jafnaði hann markafjölda Arnórs Guðjohnsen og Ríkharðs Daðasonar.

Arnór skoraði fjórtán mörk í 73 landsleikjum á árunum 1979-97. Ríkharður skoraði sín fjórtán mörk í 44 landsleikjum á árunum 1991-2004.

Þeir Albert, Arnór og Ríkharður eru jafnir í 7. sæti yfir markahæstu leikmenn í sögu íslenska landsliðsins. Birkir Bjarnason er í 6. sætinu með fimmtán mörk og Ríkharður Jónsson vermir 5. sætið með sautján mörk.

Gylfi Þór Sigurðsson er markahæstur í sögu íslenska landsliðsins með 27 mörk. Kolbeinn Sigþórsson og Eiður Smári Guðjohnsen skoruðu 26 mörk hvor fyrir landsliðið á sínum tíma og Alfreð Finnbogason átján.

Albert hefur skorað mörkin sín fjórtán fyrir landsliðið í 45 leikjum. Hann lék sinn fyrsta landsleik gegn Kína í janúar 2017, þá nítján ára. Í þriðja landsleik sínum, 1-4 sigri á Indónesíu, skoraði Albert þrennu.

Ísland mætir Úkraínu í Varsjá á sunnudaginn, í lokaleik sínum í D-riðli undankeppni HM 2026. Ef Íslendingar forðast tap í leiknum eftir tvo daga tryggja þeir sér sæti í umspili um sæti á HM á næsta ári.

Leikur Úkraínu og Íslands hefst klukkan 17:00 á sunnudaginn og verður sýndur í opinni dagskrá á Sýn Sport.


Tengdar fréttir

Gaman í íslenska klefanum eftir leik

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta er einu stigi frá sæti í umspili um laust sæti á HM næsta sumar eftir hagstæð úrslit í riðlinum í gærkvöldi.

Eggert Aron mætir fyrir úr­slita­leikinn í Póllandi

Eftir að hafa skorað eitt marka U21-landsliðs Íslands í Lúxemborg í kvöld er Eggert Aron Guðmundsson á leið til móts við A-landsliðið, fyrir úrslitaleikinn við Úkraínu á sunnudaginn um sæti í HM-umspilinu.

Frakkar á HM og Íslandi dugar jafntefli

Frakkar voru í miklum erfiðleikum með að brjóta öflugt lið Úkraínu á bak aftur í kvöld, í riðli Íslands í undankeppni HM í fótbolta, en unnu á endanum 4-0 og hjálpuðu Íslendingum fyrir sunnudaginn.

„Mikill heiður fyrir mig og mína fjölskyldu“

Jóhann Berg Guðmundsson var auðvitað ánægður í kvöld eftir stoðsendingu og sigur í sínum hundraðasta A-landsleik. Hann kveðst aldrei hafa verið í vafa um að hann næði að spila sinn hundraðasta leik.

Sjáðu mörk Íslands í Bakú

Ísland vann í kvöld ákaflega mikilvægan sigur gegn Aserbaísjan í Bakú, í undankeppni HM í fótbolta. Mörkin úr leiknum má sjá á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×