Lífið

Gríðar­lega löng röð í verslun Nocco

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Röðin nær yfir hálfa Smáralind.
Röðin nær yfir hálfa Smáralind. Aðsend

Gríðarlega löng röð hefur myndast fyrir utan tímabundna verslun Nocco í Smáralind. Fyrstu einstaklingarnir mættu klukkan hálf átta í morgun í von um að festa kaup á jóladagatali orkudrykkjasalans.

Á myndskeiðum sem birt voru á samfélagsmiðli Nocco Iceland má sjá að gríðarlega löng röð hefur myndast fyrir utan verslunina, sem opnar tímabundið í plássi í Smáralind þar sem Útilíf var áður með starfsemi sína. 

Mestu aðdáendur orkudrykksins voru mættir í húsakynni Smáralindar klukkan hálf átta í morgun og hafa beðið fyrir utan verslunina. Heitasta söluvaran er jóladagatal Nocco en þar á að vera hægt að fá orkudrykki sem eru hættir í sölu hér á landi og því eftirsóknarverðir.

Ert þú í röðinni? Sendu okkur myndir og myndskeið á ritstjorn@visir.is.

Um hálftíma fyrir opnun verslunarinnar má sjá að röðin náði að verslun Vero Moda, svo gera má ráð fyrir að röðin nái yfir rúmlega hálfa hæð verslunarmiðstöðvarinnar. Gera má ráð fyrir að röðin hafi einungis lengst á þessum nokkrum mínútum.

Klippa: Beðið eftir Nocco dagatölum

Dagatölin vinsælust

„Það er nú alveg svona létt yfir þessu. Ég stend hjá Timberland búðinni, alveg lengst aftast. Allt fyrir Nocco-inn,“ segir Gunnar Stefán Bjarnason Thors, sem er í Smáralindinni.

Hann vonast til að geta fest kaup á jóladagatalinu en býst við að allt muni seljast upp áður en röðin komi að honum. Gunnar Stefán segir að enn sé fólk að bætast í röðina en þó sé loks búið að opna búðina. Hann gefst ekki upp strax

„Ég ætla nú að taka sénsinn á þessu,“ segir Gunnar Stefán.

Sævar Breki, starfsmaður verslunarinnar, segir í samtali við fréttastofu að hann býst við að nóg sé til af vörum fyrir alla sem eru í röðinni.

„Alla veganna eins og röðin er núna erum við að fara anna þessari eftirspurn en það er spurning hvort við getum opnað á morgun,“ segir Sævar Breki.

Að hans sögn eru dagatölin séu vinsælasti varningurinn auk gamallra vara sem að venju fást ekki í hefðbundnum verslunum. Hann tekur fram að röðin hafi gengið einstaklega vel, sem er ekki sjálfgefið þegar svo margir koma saman. 

Fréttin hefur verið uppfærð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.