Innlent

Þau taka lykilákvörðun varðandi Kourani

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur er formaður nefndarinnar. Með honum í nefndinni eru Arna Guðmundsdóttir læknir og 	Fanney Óskarsdóttir lögfræðingur.
Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur er formaður nefndarinnar. Með honum í nefndinni eru Arna Guðmundsdóttir læknir og Fanney Óskarsdóttir lögfræðingur.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra hefur skipað náðunarnefnd til þriggja ára. Meðal verkefna nefndarinnar verður að taka fyrir mál Mohamad Th. Jóhannessonar, áður Kourani, sem sótt hefur um náðun af heilbrigðisástæðum.

Vísir greindi frá því í september að Kourani hefði afsalað sér alþjóðlegri vernd á Íslandi. Honum yrði vísað úr landi eftir að hann hefði afplánað helming refsingar sinnar og bannað að koma aftur til landsins í þrjátíu ár.

Landsréttur staðfesti í febrúar átta ára fangelsisdóm yfir Kourani fyrir tilraun til manndráps og fjölda annarra brota.

Beiðni um náðun Kourani af heilbrigðisástæðum liggur fyrir hjá náðunarnefnd sem gefur dómsmálaráðherra rökstuddar tillögur um afgreiðslu slíkra beiðna. 

Tveir lögfræðingar og læknir

Skipunartími náðunarnefndar rann út í lok ágúst og ekki hafa legið fyrir upplýsingar um skipan nýrrar nefndar fyrr en nú. Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að Friðrik Árni Friðriksson Hirst lögfræðingur sé nýskipaður formaður nefndarinnar en aðrir nefndarmenn eru Arna Guðmundsdóttir læknir og Fanney Óskarsdóttir lögfræðingur. 

Skipunin er til þriggja ára en þau skilyrði eru við myndun nefndarinnar að formaður og varaformaður þurfi að vera hæf til að gegna embætti héraðsdómara auk þess sem læknir þarf að eiga sæti í nefndinni.

Nefndin hefur heimild til að afla upplýsinga úr málaskrá lögreglu. Sömuleiðis að nálgast upplýsingar frá heilbrigðisstarfsfólki og heilbrigðisstofnunum til staðfestingar á fyrirliggjandi vottorðum sem og að afla nýrra gagna um heilsufar náðunarbeiðanda eða kæranda ef beiðni um náðun eða kæra er byggð á heilsufarsástæðum. Nefndinni er einnig heimilt að krefjast þess að náðunarbeiðandi eða kærandi afli sjálfur gagna um heilsufar sitt.

Þurfi að meta hvert land fyrir sig

Sýrlensk stjórnvöld hafa samþykkt að taka við Kourani verði hann fluttur úr landi. Þorbjörg Sigríður dómsmálaráðherra hefur sagt of snemmt að segja til um það hvort hún muni undirrita tillögu um náðun Kourani, fallist náðunarnefnd á að náða hann. Náðunarnefnd sé sjálfstæð og hún hafi enga innsýn inn í störf hennar. 

„Náðunarnefnd er sjálfstæð nefnd sem fær til sín umsóknir fanga í alls konar málum. Á meðan mál eru þar til meðferðar er dómsmálaráðherra ekki að vasast í þeim,“ Varðandi Sýrland, þá er það auðvitað þannig að í Evrópu allri er alltaf verið að rýna lönd sem hafa verið metin þannig að það sé ekki öruggt að senda fólk þangað aftur. Það er mat á landi í hverju tilviki fyrir sig, hvort það sé verið að senda fólk þangað almennt séð.“

Þannig snúi ákvörðunin að því frekar en að taka við tilteknum manni. Þá sé það mat Útlendingastofnunar hverju sinni hvenær þær aðstæður í landinu, sem hefur verið metið ótryggt, hafi breyst með þeim hætti að matið verði annað.

„Nýlegt dæmi er afstaða Útlendingastofnunar og kærunefndarinnar til Venesúela. Það var ákveðið mat þar en svo breyttist matið og kerfið vinnur í samræmi við það,“ sagði dómsmálaráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×