Innlent

Mál ríkis­endur­skoðanda á borði for­sætis­nefndar

Lovísa Arnardóttir skrifar
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi. Vísir/Vilhelm

Forsætisnefnd Alþingis hefur borist formlegt erindi um mannauðsmál Ríkisendurskoðunar.  Bryndís Haraldsdóttir, 1. varaforseti þingsins, staðfestir í samtali við fréttastofu að málið og gögnin séu komin til nefndarinnar. Málið sé nú á borði forseta þingsins. 

Fyrst var fjallað um á vef RÚV. Þar kemur fram að Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti þingins, staðfesti að málið sé á borði nefndar en að hún hafi ekki enn fjallað um það. Þar kemur enn fremur fram að næsti fundur nefndarinnar sé á mánudag en það fari eftir verkefnastöðu hvort málið komist að á þeim fundi. 

Fjallað hefur verið um það síðustu vikur að ófremdarástand hafi ríkt um nokkurt skeið innan stofnunarinnar eða frá því fljótlega eftir að Guðmundur Björgvin Helgason var kjörinn ríkisendurskoðandi af Alþingi. Ítrekað hafi komið upp svokölluð EKKO-mál, sem varða einelti, kynferðislega áreitni, kynbundna áreitni og ofbeldi. Guðmundur Björgvin þvertekur fyrir það og segir starfsandann góðan hjá embættinu. Ítarlega var fjallað um niðurstöður vinnustaðagreiningar á vinnustaðnum á Vísi í síðasta mánuði.

Hann sagði við lok síðasta mánaðar að hann teldi ekki ástæðu fyrir sig að íhuga stöðu sína. Hann sagði enga formlega tilkynningu hafa borist til embættisins frá starfsfólki um einelti, kynbundið eða kynferðislegt áreiti eða ofbeldi. Hann myndi taka á slíkum málum. Hann harmar að innri mál embættisins séu til umfjöllunar í fjölmiðlum og hefur ekki íhugað stöðu sína.

Í upphafi mánaðarins sagðist Jóhannes Jónsson, sviðsstjóri hjá Ríkisendurskoðun, hafa reynt að leysa úr þessu ófremdarástandi en það hafi ekki tekist. Þögn Alþingis sé óskiljanleg en þingmenn hafa völd til að vísa ríkisendurskoðanda úr embætti. Jóhannes er nú í veikindaleyfi og hyggst ekki snúa aftur vegna ástandsins.

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sagði í upphafi mánaðar að hann vildi kanna hvort þingið gæti aðhafst í máli Ríkisendurskoðanda. Hann hyggst funda með Þórunni Sveinbjarnardóttur forseta þingsins vegna málsins.


Tengdar fréttir

Vill að þingið skoði mál Ríkisendurskoðanda

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar vill kanna hvort þingið geti aðhafst í máli Ríkisendurskoðanda. Hann hyggst funda með Þórunni Sveinbjarnardóttur forseta þingsins vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×