Fótbolti

Kjána­leg skot bíta ekki á Heimi: „Verða að eiga það við sig“

Aron Guðmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson er að gera frábæra hluti með írska landsliðið í fótbolta. Eftir erfiða byrjun og harða gagnrýni er Írland nú aðeins tveimur sigurleikjum frá sæti á HM
Heimir Hallgrímsson er að gera frábæra hluti með írska landsliðið í fótbolta. Eftir erfiða byrjun og harða gagnrýni er Írland nú aðeins tveimur sigurleikjum frá sæti á HM Vísir

Heimir Hall­gríms­son hefur á skömmum tíma í starfi sem lands­liðsþjálfari Ír­lands upp­lifað bæði strembna og sigursæla tíma. Þegar illa gekk flugu fúkyrði um hann í fjölmiðlum og kald­hæðin skot er beindust að menntun hans grasseruðu, væntan­lega í þeim til­gangi að gera lítið úr honum sem lands­liðsþjálfara.

Dagarnir, eftir að Írar tryggðu sér sæti í um­spili fyrir HM með frábærum sigrum á Portúgal og Ung­verja­landi, hafa verið ein gleði­sprengja fyrir leik­menn írska lands­liðsins og lands­liðsþjálfarann Heimi Hall­gríms­son.

„Þetta hefur bara verið töfrum líkast. Ein­hvern veginn þegar allt gengur upp þá gleymir maður öllu því sem á áður hefur gengið á. Það hefur bara verið svo gaman að upp­lifa þetta með Írum. Það hefur ekki verið árangur í svolítinn tíma hjá írska lands­liðinu. Að fá þetta þakk­læti og þessa gleði sem hefur ein­hvern veginn sprungið út núna. Það er bara svo gaman að sjá það því þessir leik­menn eiga það bara skilið að fá jákvæða strauma frá um­hverfinu. Írar kunna að skemmta sér, kunna að gleðjast. Þetta hefur bara verið ein gleði­sprengja eftir þetta.“

Frábær árangur en Heimir, sem tók við írska lands­liðinu fyrir tæpu einu og hálfu ári síðan, var snemma í starfi sínu harð­lega gagn­rýndur og kallað eftir því að hann yrði rekinn. Spjótum beint að því að hann væri menntaður tann­læknir.

Heimir ræðir við hetju Íra innan vallar í leiknum gegn Ungverjum á dögunum. Framherjinn Troy Parrott skoraði þrennu í leiknum og hafði nokkrum dögum áður skorað bæði mörk Íra í 2-0 sigri gegn PortúgalVísir/Getty

Eftir fyrstu leikina í undan­keppni HM, sem fóru ekki vel fyrir Íra, fékk Heimir sem er í grunninn menntaður tann­læknir á sig mikla gagn­rýni. Meðal annars höfðu fyrr­verandi lands­liðs­menn Íra hátt og kölluðu eftir því að hann yrði rekinn eftir slæm úr­slit, kölluðu hann ítrekað tann­lækninn Heimi en ekki lands­liðsþjálfarann Heimi í niðrandi til­gangi.

Ekki margir tannlæknar sem eru þjálfarar

„Ég átti nú góðan mann í Lars Lager­back sem kenndi manni nú ýmis­legt. Eitt af því sem ég lærði af honum var að vera ekki að velta mér upp úr því hvað aðrir eru að segja, sér­stak­lega ekki á sam­félags­miðlum eða öðru slíku, Ég hef aldrei velt mér upp úr því hvað aðrir eru að segja,“ segir Heimir í viðtali við íþrótta­deild hvernig hann tekst á við gagn­rýnina og hvort hún hafi á hann áhrif.

„Ég reyni bara að standa með sjálfum mér og því sem við sem þjálfara­t­eymi ákveðum. En auðvitað er það svolítið sér­stakt og það eru auðvitað ekkert margir tann­læknar sem eru þjálfarar í fót­bolta. Þetta er svolítið ís­lenskt kannski. Ég held það skaði engan að vera með háskóla­menntun, eigi nú frekar í flestum til­fellum að bæta fólk að vera lang­skóla­gengið. Þetta er bara óvana­legt í þessu um­hverfi. Yfir­leitt eru flestir þjálfarar ein­hverjir frægir leik­menn sem hættu á sínum tíma að spila og fóru að þjálfa. Ég hef bara farið aðra leið, er með nákvæm­lega sömu og ábyggi­lega ekki minni þjálfara­menntun en allir þeir. Ég er bara með aðra menntun líka og ég held að menntun geri aldrei neinn verri.

Ef ég hlusta bara á þetta þá finnst mér þetta svolítið kjána­legt. Að vera nýta háskóla­menntun sem eitt­hvað neikvætt. En af því að þetta er óvana­legt þá fyrir­gefur maður það. En það er bara gaman að hafa snúið al­menningsálitinu því álitið snýst á svo margan hátt út frá því hvað fjölmiðlar eru að segja eða sér­fræðingar. Auðvitað er þetta sagt í kald­hæðni tann­læknirinn en ekki þjálfarinn. Þeir verða bara að eiga það við sig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×