Viðskipti innlent

Ó­vissa í kjöl­far vaxtadómsins virðist ekki hafa haft veru­leg á­hrif á fast­eigna­markaðinn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fasteignamarkaðurinn er kaupendamarkaður um þessar mundir, að mati fasteignasala.
Fasteignamarkaðurinn er kaupendamarkaður um þessar mundir, að mati fasteignasala. Vísir/Vilhelm

Kaupsamningum þar sem lögaðilar eru skráðir meðal kaupenda fasteigna hefur fjölgað úr átta prósent að meðaltali það sem af er ári, í þrettán prósent í október. Meðal annars er um að ræða kaupsamninga þar sem fjárfestingasjóðir bjóðast til að kaupa allt að fjórðungshlut í fasteignum sem þeir eru að selja.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hlutfallið fór hæst í 22 prósent í desember 2023, þegar leigufélög festu kaup á fjölda íbúða á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni til að leigja til Grindvíkinga.

Þinglýstir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði voru 983 í september og fjölgaði um fimm prósent milli mánaða. Þá benda gögn til þess að umsvif á fasteignamarkaði hafi verið svipuð í október en um 1.019 eignir voru teknar af söluskrá í mánuðinum.

Fyrstu tölur um fjölda kaupsamninga í október gefa til kynna að sú óvissa sem skapaðist í kjölfar vaxtadómsins svokallaða, með tilheyrandi samdrætti í lánaframboði, hafi ekki haft veruleg áhrif á fjölda kaupsamninga í mánuðinum.

Enn hægir þó á umsvifum að mati fasteignasala en 90 prósent telja virkni markaðarins litla miðað við árstíma. Markaðurinn er meiri kaupendamarkaður og verðþrýstingur minni, að mati fasteignasala.

Vísitala íbúðaverðs í október stóð í stað milli mánaða en íbúðaverð hefur lækkað um 0,4 prósent að raunvirði milli október 2024 og 2025. Íbúðaverð hefur hækkað um 3,87 prósent á sama tíma og verðbólga mælist 4,3 prósent.

Sérbýli á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið í verði en vísitala sérbýlis er þó öllu sveiflukenndari en vísitala fjölbýlis. Meðalkaupverð sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu var í kringum 149 milljónir króna í september.

Enn eru það ódýrustu íbúðirnar sem seljast best en best gengur að selja íbúðir sem kosta allt að 65 milljónir króna.

Hér má finna skýrsluna í heild.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×