Sport

Eftir raf­magnað og rosa­legt kvöld standa bara fjórir eftir í pílunni

Egill Birgisson skrifar
Alexander Veigar Þorvaldsson úr Pílufélagi Grindavíkur fagnar sigri og sæti í undanúrslitum úrvalsdeildarinnar í pílukasti.
Alexander Veigar Þorvaldsson úr Pílufélagi Grindavíkur fagnar sigri og sæti í undanúrslitum úrvalsdeildarinnar í pílukasti. Sýn Sport

Það lá eitthvað rafmagnað í loftinu þegar fimmta kvöld og átta manna úrslit áttu sér stað í úrvalsdeildinni í pílu í gær.

Þeir átta sem komust upp úr fyrstu kvöldunum fjórum mættu og áttust við: Árni Ágúst og Halli Birgis, Alexander Veigar og Hörður Þór, Vitor og Halli Egils og svo lokuðu Kristján og Jón Bjarmi kvöldinu.

Leikur eitt í átta liða úrslitum

Í fyrsta leik kvöldsins voru það Árni Ágúst og Halli Birgis sem einmitt mættust í síðasta stigakvöldinu þar sem Árni hafði betur. Árni og Halli byrjuðu kvöldið að skiptast á leggjum en eftir legg 2 tók Halli Birgis næstu 2 og kom sér í 3-1 en þá spítti Árni í lófana og jafnaði einvígið. 

Halli Birgis sigraði svo legg 7 og var þá einum legg frá því að tryggja sig í undanúrslit en þá sagði Árni bara stopp og jafnaði í 4-4 og sendi þetta í oddaleik og þetta var fyrsti leikur kvöldsins. 

Í oddalegg náði Halli að koma sér aðeins á undan en þá fór eitthvað að klikka og þegar staðan í leggnum er 240 - 198 Halla í vil þá gerir Árni sér lítið fyrir og hendir í risastórt 140 skor og kemur sér í útskot. Á sama tíma náði Halli ekki að svara því og Árni sigrar oddalegg og kemur sér í undanúrslit.

Klippa: Úrvalsdeildin í pílu - Leikur 1 - Árni Ágúst vann

Leikur tvö í átta liða úrslitum

Leikur 2 á kvöldinu var heldur betur stór þar sem mættust fyrsta og annað sæti á styrkleikalista ÍPS. Alexander Veigar situr þar efstur og Hörður Þór í öðru, alvöru Grindavíkurslagur og kannski ekki leikur sem menn bjuggust við í 8 manna úrslitum. Alexander byrjaði að taka legg númer 1 en Hörður svaraði með því að taka næstu 2 og kom sér í 2-1. 

Alexander snéri þessu við og tók næstu 2 og staðan orðin 3-2 fyrir Alexander. Dramatíkin hélt svo áfram þegar þeir skiptust á að taka leggi og annar leikur kvöldsins endaði líka í oddalegg. Í oddalegg var Hörður á undan að komast í útskot en Alexander var ekki langt frá því að taka út 112 og tryggja sig áfram, en á sama tíma átti Hörður 68 eftir og skildi sig eftir í 32 með eina pílu í hendi, en hún var hársbreidd frá því að fara í tvöfaldan 16. 

Alexander átti þá 3 pílur í hendi og þurfti tvöfaldan 10 til að koma sér áfram og tókst það að lokum með þriðju pílunni og sást í útsendingu að það var létt yfir Alexander að klára þetta því Hörður er ekkert lamb að leika við þegar það kemur að pílukasti.

Klippa: Úrvalsdeildin í pílu - Leikur 2 - Alexander Veigar vann

Leikur þrjú í átta liða úrslitum

Leikur 3 var svo reynsluleikurinn þar sem tveir refir í íslenskri pílu mættust, Halli Egils og Vitor Charrua. Halli Egils mætti aftur eftir að hafa þurft að stíga til hliðar lokastigakvöldið sitt vegna persónulegra aðstæðna, mætti heldur betur heitur og gerði sér lítið fyrir og kláraði Vitor í 7 leggjum. Vitori gekk illa í tvöföldum en Halli, með sínar sérstöku leiðir til að klára 501, voru ekki að bregðast honum þetta kvöld.

Klippa: Úrvalsdeildin í pílu - Leikur 3 - Halli Egils vann

Leikur fjögur í átta liða úrslitum

Lokaleikur kvöldsins var svo nýliðinn Jón Bjarmi og landsliðsþjálfarinn Kristján Sig sem áttu sviðið. Jón Bjarmi, eins og hann hefur nefnt í viðtölum fyrir sína leiki, segir að pressan sé á öllum öðrum heldur en honum því hann er bara nýr hérna og mætti til að láta finna sér. Kristján byrjaði sterkari og tók fyrsta legg en Bjarmi gerði sér lítið fyrir og tók næstu tvo. 

eir skiptust svo á tveimur leggjum og staðan 2-3 fyrir Bjarma. Kristján steig þá upp og tók næstu tvo leggi og var þá einum frá því að tryggja sig áfram en nýliðinn sagði bara nei og sendi þetta í oddalegg. Oddalegurinn fór alveg á langinn með báða í útskot, Jón Bjarmi með 78 eftir og Kristján kom sér í 90. Jón Bjarmi stígur að oche-inum og setur fyrstu píluna í 18, næsta píla snertir alveg vírinn við tvöfaldan 20 og þá var það eina eftir að gera var að setja síðustu píluna í tvöfaldan 20 og tryggja sig áfram, en sama gerðist og hann setti hana alveg upp við vírinn. 

Kristján á þá 90 eftir með 3 pílur í hendi. Útskot fyrir 90 er þá þrefaldur 20 og tvöfaldur 15, hann byrjaði að smellhitta í þrefaldan 20 og á þá bara eftir tvöfaldan 15 til að koma sér áfram. Kristján tók þá aðeins skref aftur á bak og gaf sér tíma, stígur áfram og lætur píluna fljúga í tvöfaldan 15 og mátti sjá á fagnaðarlátunum í Kristjáni að honum var létt.

Klippa: Úrvalsdeildin í pílu - Leikur 4 - Kristján Sig vann

Þá var þessu rosalega kvöldi á Bullseye lokið og mætti segja að áhorfendur heima og í sal fengju allt í æð þarna. En þá er ljóst að það verður

Árni Ágúst gegn Halla Egils

Alexander Veigar gegn Kristján Sig.

Undanúrslitakvöldið verður næsta laugardag, 28. nóvember, og þá verður í fyrsta skiptið spilað í settum og þau virka þannig að þú þarft að vinna 3 leggi af 5 til að tryggja þér 1 sett og verður spilað best of 3 í settum. Stemningin á Bullseye í gær var frábær og má búast við enn þá meiri látum næsta laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×