Fótbolti

Í­hugar fram­tíðina og gæti hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Breiða­blik

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Samantha Smith hefur möguelga leikið sinn síðasta leik fyrir Breiðablik.
Samantha Smith hefur möguelga leikið sinn síðasta leik fyrir Breiðablik. vísir / diego

Óhætt er að segja að Bandaríkjakonan Sammie Smith hafi átt góðu gengi að fagna sem leikmaður Breiðabliks. Vera má að ótrúlegur sigur á Danmerkurmeisturum Hjörring í vikunni hafi verið hennar síðasti leikur fyrir liðið.

Það var sannarlega ótrúlegur leikur á Jótlandi þar sem Blikakonur unnu samanlagðan 4-3 sigur eftir að hafa lent 3-0 undir. 

„Guð minn góður. Þegar við lentum 1-0 undir hugsaði ég bara: „Guð minn góður, við þurfum að skora þrjú mörk“ og svo komast þær í 2-0 og þá hugsaði ég: „Guð minn góður, nú þurfum við að skora fjögur.“ En við mættum miklu betur til leiks í seinni hálfleik og þegar Karitas kom inn á þá kom hún með aðra orku inn í liðið og hún breytti leiknum.“

„Svo þegar við skorum fyrsta markið þá fundum við að við gætum mögulega náð þessu og við héldum bara áfram. Svo endum við á að vinna og það var algjörlega sturlað.“

Hún skoraði annað mark Blika áður en liðið fékk aukaspyrnu á sjöundu mínútu uppbótartíma, marki undir. 

„Nokkrum mínútum áður hafði ég skotið hornspyrnu í hliðarnetið og ég hugsaði: „Skjóttu þessu á rammann. Ekki klúðra þessu.“ Mjög jákvæð hugsun. En mér tókst að koma boltanum inn í svæði þar sem við gátum gert eitthvað. Það var heppnisstimpill á snertingunni og boltinn fór á réttan stað. Ég er hæstánægð með það.“

Smith hefur farið mikinn hér á landi síðustu tvö sumur. Hún vann bæði Lengjudeildina með FHL og Bestu deildina með Breiðabliki í fyrra og vann tvöfalt með Blikum í ár. Samningur hennar í Kópavogi er runninn út og vera má að hún flytji sig um set, annað hvort á meginland Evrópu eða heim til Bandaríkjanna. 

„Mögulega,“ sagði Smith er hún var spurð út í hvort þetta hafi verið hennar síðasti leikur fyrir Breiðablik.

„Ég er ekki alveg búin að ákveða mig. Miklar tilfinningar hafa byggst upp á þessari leiktíð og þetta er magnaður hópur af stelpum. Við erum svo nátengdar innan vallar sem utan og það er sjaldgæft. Að ná svona góðum árangri á leiktíðinni og ég fann fyrir svo miklum létti og við gáfum tilfinningunum lausan tauminn. Ég elska allar þessar stelpur og ég vona að ég sjái þær aftur. Við sjáum til.“

Á meðan hún finnur út úr næstu skrefum ætlar hún að njóta með fjölskyldunni en Smith flýgur vestur um haf í dag.

„Við ætlum að halda upp á Þakkargjörðarhátíðina og borða góðan mat. Þetta er fullkominn tími til að fara heim, halda hátíð og verja tíma með fjölskyldu og vinum. Ég get ekki beðið.“

Viðtalið við Sammie Smith í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.

Klippa: Sammie Smith um ótrúlegan sigur Blika og framtíðina



Fleiri fréttir

Sjá meira


×