Innlent

Lög­reglan fylgdist með grunn­skólum

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Lögregla þakkar veitta aðstoð í málinu.
Lögregla þakkar veitta aðstoð í málinu. Vísir/Ívar Fannar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með sýnilega löggæslu við nokkra grunnskóla í dag og fylgdist með umferð ökutækja í grennd við skólana. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar kemur ekki fram hvers vegna ráðist var í eftirlitið.

Lögreglunni barst einnig tilkynning um umferðarslys þar sem bíl var ekið harkalega upp á kant með þeim afleiðingum að tveir bílar skullu saman. Einn var fluttur á sjúkrahús með minni háttar meiðsl. Báðir bílarnir voru óökuhæfir eftir slysið. 

Lögreglu bárust fleiri tilkynningar um slys en á svæði lögreglunnar í Kópavogi og Breiðholti datt einstaklingur af rafmagnshlaupahjóli. Ástand viðkomandi liggur ekki fyrir. Í umdæmi lögreglustöðvar eitt var ekið á gangandi vegfarenda og keyrt á brott. Þegar lögregluna bar að garði var vegfarendinn einnig horfinn.

Í Hafnarfirði kviknaði í bíl sem stóð nærri rafmagnsskúr. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Þá hafði lögreglan afskipti af einstaklingi við verslunarmiðstöð sem var talinn vera að kíkja inn í bifreiðar fólks. Þegar lögreglan ræddi við viðkomandi sagðist hann vera að nýta sér hliðarspegla farartækjanna til að athuga útlit sitt.

Að auki bárust tilkynningar um innbrot, þar á meðal í verslun og veitingastað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×