Fótbolti

Yfir sig á­nægður með Rashford: „Hann er sí­brosandi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marcus Rashford hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga hjá Barcelona.
Marcus Rashford hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga hjá Barcelona. getty/Joan Valls

Hansi Flick, knattspyrnustjóri Barcelona, segir að Marcus Rashford njóti sín í botn á nýjum stað.

Rashford kom til Barcelona fyrir tímabilið á láni frá Manchester United og hefur spilað vel fyrir Katalóníuliðið í vetur.

Rashford missti af 4-0 sigri Barcelona á Athletic Bilbao um helgina vegna veikinda en Flick vonast til að enski landsliðsmaðurinn verði klár fyrir leikinn gegn Chelsea í Meistaradeild Evrópu í kvöld.

„Ég er mjög, mjög ánægður. Hann kom til baka eftir að hafa fengið kvef en hann er í lagi. Við ákveðum á morgun [í dag] hvort hann byrjar eða ekki. En ég er ánægður að hafa hann í mínu liði,“ sagði Flick.

„Ég hef fylgst með honum alla tíð. Ég hreifst af hæfileikum hans og því sem hann gerði fyrir framan mark andstæðinganna. Hann hefur sýnt þetta í Barcelona. Líka fyrir hann að búa í öðru landi, með frábæru fólki og góðu veðri er frábært. Hann er síbrosandi. Ef hann nýtur andrúmsloftsins hjá okkur er það líka mjög gott.“

Rashford hefur skorað sex mörk og lagt upp sjö í sextán leikjum fyrir Barcelona í vetur.

Barcelona er í 11. sæti Meistaradeildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki.

Leikur Chelsea og Barcelona hefst klukkan 20:00 í kvöld og verður sýndur beint á Sýn Sport Viaplay.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×