Körfubolti

Álft­nesingar fá reynslu­mikinn lands­liðs­mann frá Georgíu

Aron Guðmundsson skrifar
 Rati Andronikashvili er að mæta í Bónus deildina
Rati Andronikashvili er að mæta í Bónus deildina Vísir/Getty

Georgíumaðurinn Rati Andronikashvili, sem á að baki yfir áttatíu landsleiki, er með stórmótareynslu og nokkur tímabil í efstu deild á Spáni undir beltinu, er orðinn leikmaður Bónus deildar liðs Álftaness.  

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Álftnesingum núna í morgun. Rati er 24 ára gamall, 194 sentímetrar á hæð og á að baki 85 landsleiki fyrir georgíska landsliðið og hefur farið með því bæði á HM og EuroBasket. Til að mynda spilaði hann að meðaltali sextán mínútur í leik á EuroBasket fyrr á árinu þar sem að Georgía fór alla leið í átta liða úrslit. 

Rati hefur undanfarnar þrjár leiktíðir spilað fyrir Murcia og Zaragoza í efstu deild á Spáni sem og fyrir Obradoiro í næstefstu deild þar í landi. Þá á hann einnig að baki tíma hjá VEF Riga frá Lettlandi, TSU í Georgíu og Creighton-háskólann þar sem að hann fór með liðinu alla leið í úrslit Big East riðilsins. 

Samkvæmt tilkynningu Álftnesinga mætir Rati hingað til lands að loknum yfirstandandi landsleikjaglugga en hann er nú í landsliðsverkefni með landsliði Georgíu sem mætir Úkraínu og Spáni í undankeppni HM. 

Álftanes vermir 5.sæti Bónus deildarinnar þegar að átta umferðir hafa verið leiknar með átta stig. Liðið er búið tapa síðustu tveimur leikjum sínum, annars vegar gegn Keflavík og hins vegar gegn Val. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×